Seint á síðasta ári staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Austurlands yfir Árnmari. Árnmar játaði brot sitt að hluta í héraði en neitaði þó alvarlegustu sakargiftunum, tilraun til manndráps.
Óskaði hann eftir því að fá leyfi til áfrýja niðurstöðu Landsréttar vegna tveggja ákæruliða, sem sneru að tilraun til manndráps. Taldi hann dóm Landsréttar bersýnilega rangan auk þess sem að eki hafi verið hægt að staðreyna ásetning hans með beinum hætti. Það hefði verulega almenna þýðingu að fá úr málinu skorið.
Taldi hann einnig að til grundvallar niðurstöðu dómsins hafi verið lagður framburður lögreglumanns sem hafi hlutdræga aðkomu að málinu auk þess sem margvíslegir annmarkar hafi verið á vettvangsrannsókn lögreglu.
Hæstiréttur féllst ekki á þessar röksemdir og telur að ekki verði séð að málið lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Þá byggi niðurstaða Landsréttar um sakfellingu jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti.