Bar forsetinn fyrrverandi við fimmta viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem kveður á um rétt einstaklinga til að neita að svara spurningum ef svörin gætu falið í sér viðurkenningu á sekt.
„Allir í minni stöðu væru kjánar ef þeir nýttu ekki fimmta viðaukann, algjörir kjánar,“ sagði Trump.
Trump er meðal annars grunaður um að hafa vísvitandi ofmetið eignir sínar í auðgunarskyni. Elstu börnin hans þrjú; Donald Jr., Ivanka og Eric hafa einnig verið yfirheyrð í tengslum við málið.
Í undirbúinni yfirlýsingu sem Trump las sagði hann um að ræða mestu nornaveiðar í sögu Bandaríkjanna og kallaði ríkissaksóknara New York, Letitiu James, ólíkindatól. „Þetta er allt saman afar ósanngjarnt,“ kvartaði hann.
„Einu sinni spurði ég: Ef þú ert saklaus, af hverju ertu þá að bera við fimmta viðaukanum? Nú veit ég svarið við þeirri spurningu,“ sagði Trump og sagðist fórnarlamb pólitískrar herferðar lögmanna, saksóknara og falsfréttamiðla.
Trump hefur tilkynnt um framboð sitt til forseta 2024 en sætir enn fjölda rannsókna, meðal annars vegna tilrauna til að snúa niðurstöðum síðustu kosninga, meintra mútugreiðsla og kynferðisbrota.