Nokkrum fjölda háttsettra embættismanna í stjórn Trump hefur verið stefnt til þess að gefa skýrslu í rannsókninni sem beinist að tilraunum fyrrverandi forsetans og bandamanna hans til þess að snúa við úrslitum forsetakosninganna, meðal annars með ráðabruggi um að senda Bandaríkjaþingi rangar upplýsingar um kjörmenn lykilríkja sem Trump tapaði.
Pence hefur ekki viljað ræða við þverpólitíska nefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem rannsakar árás stuðningsmanna Trump á þinghúsið 6. janúar í fyrra en hann er sagður líta rannsókn ráðuneytisins öðrum augum.
Að sögn New York Times gæti það þó tekið fleiri mánuði að fá Pence til þess að gefa skýrslu um það sem hann varð vitni að fyrir og eftir kosningarnar þar sem Trump gæti beitt ýmsum brögðum til þess að reyna að koma í veg fyrir það.
Trump hefur þannig áður reynt að koma í veg fyrir að nánustu ráðgjafar Pence gæfu skýrslu á þeim forsendum að þeir væru bundnir trúnaði gagnvart forseta. Honum hefur ekki tekist að stöðva þær skýrslutökur en hins vegar hefur það hægt verulega á rannsókninni.
Merrick Garland, dómsmálaráðherra, skipaði nýlega sérstakan rannsakanda yfir rannsókninni á tilraunum Trump til að sitja áfram sem forseti og leyniskjölum sem hann hafði með sér úr Hvíta húsinu þegar hann lét af embættinu. Það gerði hann eftir að Trump lýsti yfir framboði til forseta árið 2024.