Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra flutti Alþingi munnlega skýrslu í dag um stöðu ÍL sjóðs þar sem skuldbindingar gamla Íbúðarlánasjóðsins eru geymdar samkvæmt sérstökum lögum með einfaldri ríkisábyrgð. Bréf sjóðsins hafa gengið kaupum og sölum og sagði fjármálaráðherra um 80 prósent þeirra nú í eigu lífeyrissjóða.

Bjarni kynnti á dögunum skýrslu um stöðu sjóðsins og mögleika á að honum verði slitið, því skuldbindingar hans vaxi hratt. Yrði honum slitið í dag tæki ríkisábyrgðin á um 47 miljörðum en ef hann fengi að lifa út gildistíma elstu skuldabréfa gæti skuldbinding ríkissjóðs orðið um 200 milljarðar að núvirði. Skuldir sjóðsins væru 710 milljarðar en eignir 663 milljarðar.
Fjármálaráðherra segir að best yrði að semja við kröfuhafa um skuldbindingar sjóðsins en einnig væri hægt að slíta honum með lögum.
„Og ég hef þess vegna nú þegar hafið undirbúning að því að geta lagt fyrir þingið slíkt frumvarp. Það verður í vinnslu næstu vikur og mun meðal annars taka tillit til þess sem fram kemur í samtölum við kröfuhafa," sagði Bjarni. Frumvarpið gæti komið fram eftir áramót ef á þyrfti að halda og þá Alþingis að taka afstöðu til þess.
Ef ekkert yrði gert drægjust skuldbindingar ríkissjóðs fram til ársins 2044 og staðan versnaði þannig að þær yrðu um 200 milljarðar, eða sem svaraði til kostnaðar við byggingu tveggja nýrra Landsspítala.
Kristrún Frostadóttir verðandi formaður Samfylkingarinnar sakaði fjármálaráðherra um bókhaldsbrellur til að koma skuldbindingum ríkissjóðs yfir á lífeyrissjóði almennings.

„Hæstvirtur fjármálaráðherra fetar nú í fótspor fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Liz Truss, með glannaskap í efnahagsmálum. Heldur blaðamannafund um hvernig hann ætlar að spara þjóðinni fúlgur fjár með því að knýja gamla Íbúðarlánasjóð í þrot,“ sagði Kristrún.
Íslenskir fjármálamarkaðir keyptu ekki þessa hugmynd ráðherra fremur en breskir markaðir hugmyndir Liz Truss. Enda væri þetta bókhaldsbrella til að færa skuldir ríkissjóðs yfir á lífeyrissjóðina.
„Það er í hæsta máta óábyrgt að bera þessa voodo hagfræði á borð fyrir þjóðina. Annað hvort skilur fjármálaráðherra ekki hvernig einifaldar fjármálaafurðir virka eða hann er að ljúga að þjóðinni. Ég veit ekki hvort er verra,“ sagði Kristrún.

Bjarni þetta lýsa kunnáttuleysi.
„Það er mikill ábyrgðarhluti þegar háttvirtur þingmaður stendur hér í þingsal og heldur því fram að fram sé komið að ríkið ætli enga ábyrgð að bera á framtíðar skuldbindingum ÍL sjóðs," sagði Bjarni.
Þetta væru algjör öfugmæli því ríkið myndi alltaf standa við sína einföldu ríkisábyrgð samkvæmt lögum um sjóðinn. Eigendur krafnanna hefðu þá 22 ár til að ávaxta eign sína og hefðu til þess mun meiri möguleika en ríkissjóður. Ekki reyndi á ríkisábyrgðina fyrr en einstök gömul íbúðarlán væru komin í vanskil og innheimtuleiðir hefðu verið reyndar.
„Þannig að þegar háttvirtur þingmaður sakar mig um að skilja ekki fjármálamarkaði þá ætla ég að halda því fram að háttvirtur þingmaður skilji ekkert í lögfræðinni í þessu máli,“ sagði fjármálaráðherra.
„Það sem háttvirtur þingmaður er hins vegar að segja er þetta: Við skulum leysa úr þessu máli með því að sjá sjúklingnum blæða hægt og rólega út. Láta okkur það engu varða þó að í hverjum mánuði vaxi skuldbinding framtíðart skattgreiðenda um einn og hálfan milljarð, á hverju ári um 18 milljarða. Við þurfum að strjúka fjármálaöflunum í landinu, kröfuhöfunum. Fjármálamarkaðarnir verða ávallt að vera í forgangi,“ sagði Bjarni Benediktsson.