Í tilkynningu frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að átakið hafi gengið mjög vel.
„Samtals þáðu 19.002 bólusetningu á meðan átakinu stóð. Boðið var upp á bólusetningu gegn Covid-19 og voru alls 13.125 skammtar gefnir. Aðeins var boðið upp á örvunarskammt fyrir þau sem voru með grunnbólusetningu fyrir. Samhliða var boðið upp á bólusetningu við inflúensu og gat fólk ráðið hvort það fékk bólusetningu við öðrum eða báðum sjúkdómunum. Alls voru gefnir 15.259 skammtar af bóluefni við inflúensu í átakinu í Höllinni,“ segir í tilkynningunni.
Ennfremur segir að eftir að átakinu lauk hafi yfir áttatíu prósent landsmanna yfir fimmtíu ára aldri fengið að minnsta kosti þrjá skammta af bóluefni og vel rúmur helmingur fólks á aldrinum sextán til fimmtíu ára. Um helmingur landsmanna sjötíu ára og eldri hafi nú fengið fjóra skammta og þriðjungur fólks á aldrinum sextíu til 69 ára.
Nú þegar bólusetningarátakinu í Laugardalshöll er lokið færast bólusetningar við bæði Covid-19 og inflúensu inn á heilsugæslustöðvarnar. Heilsugæslan hvetur fólk undir sextíu ára aldri sem sé með undirliggjandi sjúkdóma að hafa samband við sína heilsugæslustöð og kynna sér hvenær hægt er að koma í bólusetningu.