Hutchins fékk skot í bringuna úr byssu sem leikarinn Alec Baldwin hélt á við tökur á kvikmyndinni í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum á síðasta ári. Hutchins lést af sárum sínum. Fjölskylda hennar höfðaði einkamál á hendur Baldwin og öðrum framleiðendum myndarinnar þar sem farið var fram á skaðabætur vegna dauða hennar.
Í frétt Deadline kemur fram að Baldwin og aðrir framleiðendur hafi komist að samkomulagi við fjölskylduna. Hún hefur á móti fallist á að einkamálinu verði vísað frá dómi.
Samkvæmt samkomumlaginu verðir Matthew Hutchins yfirframleiðandi myndarinnar (e. executive producer). Tökum á myndinni verður jafn framt framhaldið í janúar á næsta ári. Tökur hafa legið niðri frá því að atvikið átti sér stað.
Í yfirlýsingu frá Hutchins segir að fjölskyldan hafi engan áhuga á því að kenna einum né neinum um dauða Halynu. Allir aðilar málsins séu sammála um að dauði hennar hafi verið hræðilegt slys.
Saksóknarar í Nýju-Mexíkó hafa enn ekki gefið út hvort að ákærur vegna dauða Hutchins verði gefnar út.