Þetta mælist í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki mælst stærri síðan í mars á þessu ári og mælist nú með sama fylgi og í Alþingiskosningunum í haust. Vinstri græn missa örlítið fylgi frá síðustu mælingu og er nú með tæplega 8 prósent. Framsóknarflokkurinn heldur sínu striki og mælist líkt og í júní með 18 prósent.

Fylgi Viðreisnar helst jafnframt nokkuð stöðugt milli mælinga eða með rúmlega 8 prósenta fylgi. Píratar mælast með nærri 13 prósent og minnkar fylgi þeirra um tvö prósentustig milli mælinga. Þá minnkar fylgi Samfylkingarinnar um rúm tvö prósentustig og er nú um 11 prósent en flokkurinn hefur lækkað um fjögur prósentustig síðan í maí.
Þá mælist Flokkur fólksins með um 7 prósenta fylgi sem er svipað og í júní, þó hann bæti örlítið við sig. Sósíalistaflokkurinn mælist nú minnstur flokkanna með rúm 5 prósent og lækkar fylgið um prósentustig milli mælinga. Miðflokkurinn mælist með 6 prósent og bætir við sig einu prósentustigi frá því í júní.

Örlítill munur er á fylgi flokkanna milli kynja. Meðal kvenna er Sjálfstæðisflokkurinn með 22,8 prósenta fylgi en 25,9 prósenta fylgi hjá körlum. 17,2 prósent kvenna segjast þá myndu kjósa Framsóknarflokkinn en 18,8 prósent karla. Nokkur munur er milli kynja á fylgi Samfylkingarinnar er 9,9 prósent karla segjast myndu kjósa hana en 11,9 prósent kvenna.
Þá er talsverður fylgismunur milli kynjanna hjá VG en 5,9 prósent karla myndu kjósa VG og 9,8 prósent kvenna. Sama má segja um Flokk fólksins, 9,3 prósent kvenna myndu kjósa hann og 4,8 prósent karla. 8,1 prósent karla myndu kjósa Miðflokkinn og 3,6 prósent kvenna. Þá myndu 4 prósent kvenna kjósa Sósíalistaflokkinn og 6 prósent karla.