Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði meginvexti sína úr 2,75 prósentum í 3,75 prósent í morgun. Hækkunin mun meðal annars leiða til hækkunar húsnæðislánavaxta viðskiptabankanna og þar með greiðslubyrði heimilanna af þeim. Þegar vaxtalækkunarferli bankans hófst fyrir þremur árum fóru vextirnir úr 4,5 prósentum í fjögur prósent í maí 2019.
Þeir lækkuðu síðan hratt og urðu lægstir 0,75 prósent í nóvember 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn hafi geisað í níu mánuði. Fyrir nákvæmlega ári tóku vextirnir að hækka á ný þar til þeir voru komnir í 2,75 prósent í byrjun febrúar á þessu ári og í dag voru þeir hækkaðir um eitt prósentustig upp í 3,75 prósent.

Enn og aftur eins og undanfarin misseri spáir Seðlabankinn versnandi efnahagshorfum og þar með verðbólguhorfum. Verðbólgan eigi eftir að hækka á næsta ársfjórðungi og þar með vextirnir.
Nú þegar kórónuveirufaraldurinn er nánast liðinn segir seðlabankastjóri að stríðið í Úkraínu valdi enn frekari verðhækkunum á hrávöru í útlöndum sem valdi verðhækkunum hér á landi. Verðbólga mælist nú 7,2 prósent. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er svartsýnn á framhaldið og bankinn spáir því að verðbólgan fari yfir átta prósentin á næsta ársfjórðungi.
„Það er ástæðan fyrir því að við hækkum verðbólguspána núna. Við óttumst að á næstu mánuðum munum við sjá aukna innflutta verðbólgu sem muni hækka verðbólgustigið. Það bætist síðan við aðra þætti sem hafa verið að hækka hér innanlands eins og hækkun fasteignaverðs, verð þjónustu og fleira,“ segir Ásgeir.
Það sé ekki rétt mat hjá ýmsum forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar að hækkun vaxta kyndi undir verðbólgunni þótt hann skilji áhyggjur þeirra af stöðunni. Nú þurfi allir; Seðlabankinn, ríkið og aðilar vinnumarkaðarins aðleggjast á eitt til að vinna gegn verðbólgunni.
„Það er mjög mikilvægt að við náum að mynda stöðugan grunn fyrir kjarasamninga. Að við náum að halda áfram þeirri stefnu sem er búin er að vera, um langtíma aukningu kaupmáttar og stöðugleika. Þannig að heimilin geti reiknað með að fá aukinn kaupmátt með jöfnum og þéttum hætti. Ekki upp og niður eins og hefur alltaf verið hér,“ segir Ásgeir Jónsson.