Enn liggur ekki að fullu fyrir hvað gerðist á tökustað myndarinnar Rust. Joel Souza, leikstjóri myndarinnar, segir Baldwin hafa verið að æfa atriði þar sem hann átti að draga byssu á loft og beina henni að myndavélinni. Souza og Hutchins stóðu við myndavélina og þegar skot hljóp úr byssunni særðust þau bæði. Hutchins lést á sjúkrahúsi.
Fram hefur að aðstoðarleikstjórinn Dave Halls rétti Baldwin byssuna og lýsti því yfir að hún væri óhlaðin. Hannah Gutierrez-Reed, skotvopnasérfræðingur kvikmyndarinnar, hafði þar áður meðhöndlað byssurnar.
Souza segir að þau bæði eigi að ganga úr skugga um að byssur séu ekki hlaðnar á tökustað. Halls hafði áður verið rekinn úr framleiðsluteymi myndar eftir að skot hljóp óvænt úr byssu.
Adan Mendoza, fógetinn, staðfesti að þau hefðu handleikið byssurnar og sagði að Guiterrez-Reed, Halls og Baldwin væru samvinnufús.
Hann sagði einnig að öryggisráðstafanir hafi ekki verið nægjanlegar á tökustaðnum.

Telja að raunveruleg byssukúla hafi verið í byssunni
Mendoza sagði einnig að blý-hlutur hefði verið fjarlægður úr öxl Souza. Hann sagði lögregluna telja að blý-hluturinn væri raunveruleg kúla sem hafði verið skotið úr byssunni. Verið væri að ganga úr skugga um að blýhluturinn hefði verið hefðbundin byssukúla en ekki einhverskonar brak sem hefði verið í hlaupinu.
Hann sagði einnig að talið væri að hluturinn sem hefði verið fjarlægður úr öxl Souza hefði einnig banað Hutchins en það væri ekki staðfest að svo stöddu.
Talið er að einungis eitt skot hafi verið í byssunni.
Við rannsókn málsins hafa lögregluþjónar tekið um sex hundruð muni sem sönnunargögn. Þar á meðal væru þrjár byssur. Ein raunveruleg byssa sem kúlunni hefði verið skotið úr, önnur raunveruleg byssa og ein plastbyssa.
Hér má sjá blaðamannafundinn í heild sinni.
Fundu um 500 skot
Lögregluþjónar hafa einnig lagt hald á um það bil fimm hundruð byssuskot. Mendoza sagði að þar á mðeal púðurskot og hefðbundin skot. Samkvæmt öryggisviðmiðum kvikmyndaiðnaðarins vestanhafs eru hefðbundin skot alfarið bönnuð á tökustöðum.
Mendoza sagði þó einnig að enn væri verið að ganga úr skugga um að um hefðbundin skot með blýkúlum væri að ræða.
Hann sagði rannsókn enn standa yfir og sagði of snemmt að tala um mögulegar ákærur. Tiltölulega fáir hefðu verið á æfingunni þegar skotið hljóp af og búið væri að ræða við þau. Um það bil hundrað manns hefðu þó verið á tökustaðnum og það ætti eftir að ræða við þau öll.
Fréttin hefur verið uppfærð.