Atvikið átti sér stað þegar verið var að undirbúa tökur, með þeim hætti að skot úr byssu sem Baldwin hleypti af hæfði maga Halyna Hutchins og öxl leikstjórans Joel Souza. Hutchins var flutt með þyrlu á sjúkrahús þar sem hún var úrskurðuð látin en Souza var útskrifaður eftir að gert var að sárum hans.
Tökum á Rust var hætt um leið og atvikið átti sér stað en People hefur eftir heimildarmanninum að Baldwin hafi frestað öllum öðrum verkefnum sem voru á dagskrá á næstunni.
Hann segir Baldwin takast á við erfiðleika með því að hverfa úr sviðsljósinu í einhvern tíma.
„Það á eftir að taka hann tíma að vinna úr þessu. Hann þarf að taka tíma fyrir sjálfan sig, til að vera með fjölskyldunni,“ segir heimildarmaðurinn.
Erlendir miðlar hafa greint frá því að aðstoðarleikstjóri myndarinnar hafi tilkynnt Baldwin að byssan væri óhlaðinn þegar hann fékk honum hana í hendur. Þá höfuð ýmsar athugasemdir verið gerðar við öryggi á tökustaðnum, meðal annars meðhöndlun skotvopna.
Baldwin hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann harmar dauða Hutchins og þá hefur hann verið lögreglu innan handar við rannsókn málsins. Enginn hefur verið handtekinn vegna atviksins.