Innlent

Myndu leyfa mót­efna­lyfið ef Land­­spítali óskaði eftir því

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Rúna Hauksdóttir Hvanndal, forstjóri Lyfjastofnunar.
Rúna Hauksdóttir Hvanndal, forstjóri Lyfjastofnunar. mynd/lyfjastofnun

Lyfja­stofnun myndi sam­þykkja notkun mót­efna­lyfsins Rona­pre­ve ef Land­spítalinn óskaði eftir því að fá að nota það í með­ferð sjúk­linga með Co­vid-19. Lyfið fékk ­leyfi í Bret­landi í gær.

Vísir náði tali af Rúnu Hauks­dóttur Hvann­berg fyrr í kvöld til að spyrjast fyrir um hvort stofnunin væri með það til skoðunar að veita mót­efna­lyfinu leyfi á Ís­landi. Hún sagði að til að skoða það þyrfti stofnuninni að berast beiðni um leyfi fyrir notkun þess frá Land­spítalanum en slík beiðni hefði ekki borist enn.

„En það er þannig að ef það kemur ósk um að nota þetta lyf, þá myndum við í öllum til­fellum veita það,“ segir hún. „Það væri til dæmis byggt á því að það eru ekki til mörg úr­ræði við Co­vid-19.“

Sam­kvæmt frétt The Guar­dian um leyfi bresku lyfja­stofnunarinnar í gær segir að rann­sóknir sýni að lyfið geti dregið úr líkum á spítala­inn­lögnum um allt að 70 prósent. Það virki sér­stak­lega vel ef það er gefið þeim sem fá ein­kenni Co­vid-19 mjög snemma í veikinda­ferlinu.

Lyfið virðist einnig flýta fyrir bata sjúk­linga, í sumum til­fellum um allt að fjóra daga. Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, var gefið lyfið þegar hann veiktist af Co­vid-19 í fyrra.

Evrópu­sam­bandið hefur heimilað notkun lyfsins í neyð og Lyfja­stofnun Evrópu er nú með það í prófunum.

Rúna segir að Lyfja­stofnun Ís­lands myndi veita Land­spítalanum leyfi til að nota lyfið ef honum þætti það æski­legt á grunni þessa leyfis Evrópu­sam­bandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×