Ákveðið var því að gera tilraun við gosstöðvarnar til að sjá hvaða áhrif rennandi hraun hefur á ljósleiðara sem liggur undir því. Lítil gögn eru nefnilega til um hvernig ljósleiðurum reiðir ef þeir verða undir hrauni. Þá er lítið vitað um hversu langt niður í jörðu áhrif hraunsins ná.
Hraunið kom síðan upp að varnargörðunum og yfir tilraunaljósleiðarann á miðvikudaginn. Samkvæmt upplýsingum frá Mílu hefur hann enn sem komið er staðist prófið og virkar sem skyldi. Hann er ekki grafinn nema 60 til 70 sentímetra niður í jörðu, líkt og flestir ljósleiðarar.
Mikilvæg reynsla
Litið er nú á alla framkvæmd varnargarðanna við gosstöðvarnar sem hálfgert tilraunaverkefni sem skapar mikilvæga reynslu verkfræðinga í framtíðinni ef búast má við fleiri gosum á Reykjanesskaganum og nálægt byggð.
Ríkisstjórnin samþykkti það fyrir síðustu helgi að ráðast í verkefnið og láta reisa tvo fjögurra metra háa varnargarða til að aftra því að hraun færi að renna niður í Nátthaga. Þaðan myndi það fljótt renna sína leið að Suðurstrandavegi og er ljóst að ef hraunið nær þangað muni vegurinn skemmast. Ákveðið var síðan á þriðjudaginn að bæta tuttugu milljónum við verkefnið og hækka varnargarðana upp í átta metra.
Gagnrýni kom upp um verkefnið í kjölfarið og benti jarðeðlisfræðingurinn Páll Einarsson til að mynda á að engin leið væri að stöðva hraunið ef gosið héldi áfram í lengri tíma.
Hörn Hrafnsdóttir, umhverfis- og byggingarverkfræðingur hjá Verkís sem stýrir gerð varnargarðanna, sagði í samtali við Stöð 2 í gær að þetta væri rétt hjá Páli en aðalatriðið væri ekki að stöðva hraunið heldur að afla mikilvægrar þekkingar og reynslu í hvernig hægt er að tefja rennandi hraun.
„Það sem skiptir kannski meginmáli er að ef Reykjanesið er vaknað og þetta getur komið upp einhvern tíma annars staðar seinna, þar sem eru mikilvægir innviðir, að við lærum á þetta allt saman þannig við erum þá að reyna núna og fáum ýmislegt svona í farteskið fyrir næstu árin og áratugina kannski,“ sagði Hrönn.
Ljósleiðaraverkefnið er liður í þessu og mun svara spurningum manna um hvort ljósleiðarar geti staðið af sér eldgos sem þetta.