Innlent

Tali ekki fyrir unga Miðflokksmenn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Anton Sveinn McKee er formaður Ungra Miðflokksmanna.
Anton Sveinn McKee er formaður Ungra Miðflokksmanna. Vísir/Einar

Einn fyrrverandi stjórnarmeðlimur og einn núverandi stjórnarmeðlimur Ungra Miðflokksmanna sem viðrað hafa umdeildar skoðanir opinberlega tala ekki fyrir hönd ungliðahreyfingarinnar. Þetta segir formaður Ungra Miðflokksmanna. Hann segir einstaklinga bera ábyrgð á eigin orðum, allir séu velkomnir í hreyfinguna.

Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Sláin inn en þar heldur Birgir Liljar Soltani um þáttastjórn. Hann situr í stjórn Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ og fær til sín gesti í þáttinn úr íslenskum stjórnmálum. Í nýjasta þættinum fær hann til sín Anton Svein McKee formann Ungra Miðflokksmanna og berst talið undir lok þáttarins að Sverri Helgasyni, sem sat þar til í síðustu viku í stjórn ungliðahreyfingar flokksins.

Sverrir steig til hliðar eftir að ummæli hans í hlaðvarpsþættinum Bjórkastinu vöktu gríðarlega athygli. Þar sagðist hann telja genamengi fólks skipta máli þegar kemur að getu þeirra til að aðlaga sig nýjum samfélögum og talaði um sjálfan sig sem „race-realist“ og sagði það ekki trufla sig ef hann væri kallaður rasisti. Sverrir hefur auk þess farið mikinn á samfélagsmiðlinum X og meðal annars viðrað áhyggjur sínar þar af úrkynjun og hnignun íslensks samfélags.

Geti ekki tjáð sig með hvaða hætti sem er

Í þættinum af Sláin inn berst Sverrir í tal og Anton spurður að því hvort það hafi verið dómgreindarbrestur af hans hálfu og annarra stjórnarmeðlima í ungliðahreyfingu Miðflokksins að hafa tekið Sverri inn í stjórn.

„Sverrir vill náttúrulega bara breyta samfélagsumræðunni á Íslandi og ég ætla ekki að fara inn í einhver sérstök orð sem hann lét falla og orðin hans eru bara á hans eigin ábyrgð. Hver og einn maður ber ábyrgð á sínum orðum. Eins og þú sást kannski í viðtalinu við Tóta í Einni pælingu þá var það strax þannig að Sverrir upplifði sig ekki fá að hafa þau tækifæri til að tjá sig á þann máta sem hann vildi inni í Ungum,“ segir Anton.

Þetta hafi verið rætt innan stjórnar ungliðahreyfingar Miðflokksins. Hvort Sverrir gæti ekki betur tjáð sig á þann hátt sem hann vilji utan ungliðahreyfingarinnar.

„Þannig þegar þetta kemur upp þá bara ákveður hann að stíga út og ég held að það sé þá bara það sem hann vildi gera og var búið að vera í umræðunni hjá okkur fyrir. Auðvitað tökum við öllum sem vilja byggja upp sterka ungliðahreyfingu en það náttúrulega fylgir allt öðruvísi ábyrgð þegar þú ferð inn í stjórnina. Og það auðvitað sýnir sig í því að maður getur ekki bara tjáð sig á hvaða máta sem er og það var náttúrulega einmitt enda niðurstaðan að hann myndi fara út.“

Gengst ekki við dómgreindarbresti

Endurspeglar þetta skoðanir þeirra sem eru innan stjórnar ungra Miðflokksmanna?

„Eins og ég sagði: Þú berð ábyrgð á þínum eigin orðum og þetta eru hans orð. Þetta eru ekki orð Ungra Miðflokksmanna. Það er samt ótrúlega áhugavert við þessa umræðu að Andrés Jónsson getur haldið því fram að Íslendingar séu heimskir, einmitt besti vinur og almannatengill hjá Samfylkingunni og Kári Stefánsson getur kallað Íslendinga heimska út frá genalegum þáttum og umhverfisþáttum í sjónvarpi og það gerist ekkert þá. En, eins og ég segi: Umræðan er á þann máta að ef þú gagnrýnir Íslendinga þá er það í lagi.“

Þá gengur Birgir Liljar enn frekar á Anton í þættinum og endurtekur spurninguna: Hvort hann telji það hafa verið dómgreindarbrest hjá Antoni og kollegum hans í stjórn ungliðahreyfingarinnar að hafa tekið mann með slíkar skoðanir inn í stjórn?

„Það er rosa áhugavert ef þú ætlar að kalla það einhvern dómgreindarbrest að taka menn inn sem vilja byggja upp sterka ungliðahreyfingu. Eins og ég segi: Hann var sjálfur búinn að átta sig á því að hann gat ekki verið að tala á þann máta sem hann vildi og ákvað að fara út. Að henda inn einhverri yfirlýsingu, fullyrðingu um eitthvað svona, það er bara...ég er ekki að fara að taka þátt í því hérna.“

Aðrir stjórnarmeðlimir beri líka ábyrgð á eigin orðum

Þá berst talið í þættinum að skoðunum annars stjórnarmeðlims í ungliðahreyfingu Miðflokksins, Helenu Ólafar Snorradóttur sem viðrað hefur skoðanir sínar á þungunarrofi á samfélagsmiðlinum Tik Tok. Birgir Liljar lætur þess getið að skoðanir hennar séu öfgafullar.

Þú ert líka með Helenu Ólöfu Snorradóttur í stjórn með þér sem hefur verið virk á Tik-Tok og hefur deilt að mínu mati frekar öfgafullum skoðunum þar, á borð við það að fóstureyðingar séu morð og annað í þeim dúr. Ég meina, er þetta bara normið í Miðflokknum, að vera öfgamaður?

„Það er ekkert....við erum náttúrulega bara á þeirri vegferð að stækka flokkinn og þeir sem koma til okkar eru að taka þátt í því að byggja upp betra land, eins og ég segi. Þegar þú ert að koma með ákveðnar einstaka skoðanir þá er það ekki í nafni hreyfingarinnar sem þú segir þessi orð. Þannig að að það Helena komi með þessa skoðun það litar ekki alla og er þá ekki skoðun allrar ungliðahreyfingarinnar. Og hún má alveg hafa sínar skoðanir og það þýðir ekki að henni þurfi þá að vera refsað fyrir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×