Trump var ákærður fyrir embættisbrot öðru sinni þann 13. janúar, sjö dögum áður en hann lét af embætti. Hann er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur verið ákærður fyrir embættisbrot tvisvar sinnum.
Sjá einnig: Trump ákærður fyrir embættisbrot öðru sinni
Trump er í raun ákærður fyrir að hvetja til uppreisnar og snýr sérstaklega að hlutverki forsetans í því að æsa fólk upp, sem á endanum braut sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar, með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna í nóvember.
Fimm létu lífið í árásinni og þar af einn lögregluþjónn og kona sem var skotin af löggæslumanni.
Hér að neðan má fylgjast með beinni útsendingu af þinginu þar sem umræður fara fram í kvöld.
Réttarhöldin hófust upp úr klukkan sex og munu þau standa yfir í um fjóra tíma í kvöld, samkvæmt áætlun. Umræðan í kvöld snýst um það hvort það fari gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna að rétta yfir fyrrverandi forseta fyrir meint embættisbrot.
Málflutningur Demókrata hófst á myndbandi þar sem meðal annars var sýnt frá árásinni á þinghúsið og ræðu Trumps í aðdraganda árásarinnar.