Undanfarin fimm ár hafa samskipti Skotlands og Bretlands farið versnandi meðal annars vegna Brexit, viðbragða breskra stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum og ítrekaðrar kröfu skoskra stjórnvalda um að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um skoskt sjálfstæði.
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, hefur gagnrýnt Johnson harðlega undanfarna mánuði vegna viðbragða yfirvalda við faraldrinum. Johnson svaraði því að hluta í dag þegar hann sagði Skotland græða mikið á því að vera hluti af Bretlandi þar sem Skotar fengju skjótt og öruggt aðgengi að bóluefni Oxford háskóla sem nú er í dreifingu.
„Við höfum tekið okkur á til þess að ráða niðurlögum veirunnar,“ sagði Johnson í dag. „Samvinna allra á Bretlandi í þessum faraldri er einmitt það sem Skotar kölluðu eftir og það er það sem við höfum einblínt á.“
Sturgeon benti hins vegar á það í dag að það skyti skökku við að forsætisráðherrann predikaði um aðgerðir vegna faraldursins en ætlaði nú að ferðast frá Lundúnum til Skotlands og spurði hvort heimsóknin væri virkilega nauðsynleg og sagði hana ekki gott fordæmi.
Sturgeon hefur lýst því yfir að hún vonist til þess að flokkur hennar, skoski þjóðarflokkurinn, tryggi sér meirihluta í skosku þingkosningunum í maí næstkomandi. Það myndi gefa henni umboð til þess að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði.
Kjósi Skotar að lýsa yfir sjálfstæði þýðir það að Bretland missir nærri þriðjung landssvæðis síns og nærri tíu prósent íbúa. Johnson, sem þyrfti að samþykkja að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, hefur sagt ítrekað að ónauðsynlegt sé að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að Skotar kusu gegn sjálfstæði árið 2014.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2014 greiddu 55 prósent kjósenda gegn sjálfstæði og 45 prósent kjósenda með. Hins vegar vildi meirihluti Skota vera áfram í Evrópusambandinu, þegar þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit fór fram, og síðan þá hafa skoskir þjóðernissinnar krafist nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu.