Heiko Maas utanríkisráðherra Þjóðverja sagði í morgun að Alexander Lukashenko forseti Hvíta Rússlands ætti að vera á lista yfir áhrifamenn þar í landi sem beittir eru viðskiptaþvingunum. Þetta sagði Maas við blaðamenn í morgun áður en hann hélt til fundar við kollega sína í Evrópusambandinu en fundað er í Lúxembúrg.
Evrópusambandið samþykkti viðskiptaþvinganir á ráðamenn í Hvíta Rússlandi á dögunum en athygli vakti að Lukashenko forseti var ekki þar á meðal. Maas segir að viðskiptaþvinganirnar hafi hingað til engu skilað og því leggur hann nú til að herða róðurinn og láta þær bitna á sjálfum forsetanum. Enn er tekist á í landinu um úrslit síðustu forsetakosninga en svo virðist sem Lukashenko og menn hans hafi beitt víðtæku kosningasvindli.
Í gær kom til átaka á milli lögreglu og mótmælenda í höfuðborginni Minsk og beitti lögregla táragasi og öflugum vatnsbyssum til að dreifa mannfjöldanum. Tugir eða hundruð voru handteknir í átökunum, að sögn Reuters.