Óháð alþjóðleg rannsókn þarf að fara fram á hvernig eitrað var fyrir Alexei Navalní, einum leiðtoga rússnesku stjórnarandstöðunnar, að mati Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra. Hann hvetur rússnesk stjórnvöld til þess að vera samvinnuþýð í að draga þá seku til ábyrgðar.
Þýsk stjórnvöld greindu frá því í dag að Navalní hefði verið byrlað taugaeitrið novichok. Navalní veiktist hastarlega í flugi í síðasta mánuði. Rússneskir læknar sögðu í fyrstu að eitrað hefði verið fyrir honum en drógu það fljótt til baka. Aðstandendur Navalní kröfðust þess að fá leyfi til að flytja hann til sjúkrahúss í Berlín og var það veitt eftir nokkuð japl, jaml og fuður í Rússlandi.
Novichok er sama eitur og tveir rússneskir leyniþjónustumenn eru taldir hafa byrlað Sergei Skrípal, rússneskum fyrrverandi njósnara, og dóttur hans í bænum Salisbury á Englandi í mars árið 2018.
Guðlaugur Þór utanríkisráðherra segist sleginn yfir tíðindunum frá Þýskalandi um að eitrað hafi verið fyrir Navalní með taugaeitrinu í tísti nú í kvöld.
„Óháð alþjóðleg rannsókn er nauðsynleg. Ég hvet rússnesk stjórnvöld til að vera samvinnuþýð að fullu við að koma réttlæti yfir þá ábyrgu,“ tísti utanríkisráðherra upphaflega á ensku.
Shocked by disturbing reports from the German government that Alexei #Navalny @navalny was poisoned with a chemical agent, #Novichok. Independent international investigation is necessary. Calling on Russian authorities to cooperate fully in bringing those responsible to justice.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) September 2, 2020
Stuðningsmenn Navalní saka Vladímír Pútín, forseta Rússlands, um að hafa gefið skipun um að eitra fyrir honum. Því hafa stjórnvöld í Kreml hafnað með öllu. Á langri valdatíð Pútín hefur þó fjöldi stjórnarandstæðinga og fjandmanna forsetans fallið frá við voveiflegar aðstæður.
Rússneskir saksóknarar kröfðust þess í dag að fá ítarlegar upplýsingar um læknisfræðirannsóknir sem hafa verið gerðar á Navalní í Þýskalandi. Þeir hafa haldið því fram til þessa að ekkert tilefni hafi verið til þess að hefja sakamálarannsókn á veikindum Navalní.
Navalní hefur einn fyrirferðamesti stjórnarandstæðingur Rússlands um árabil. Hann hefur ítrekað verið handtekinn fyrir að skipuleggja og taka þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum. Þá hafa yfirvöld þjarmað að samtökum gegn spillingu sem hann rekur. Navalní var meinað að bjóða sig fram til forseta gegn Pútín árið 2018 á grundvelli fjársvikadóms sem hann hlaut en hann fullyrðir að hafi átt sér pólitískar rætur.