Sex vikna gamalt ungbarn er í hópi þeirra sem létust af völdum Covid-19 í Bretlandi samkvæmt nýjustu tölum sem birtar voru í dag. Barnið er það yngsta í landinu sem látist hefur af völdum sjúkdómsins.
Ensk heilbrigðisyfirvöld greindu frá því í hádeginu að dauðsföllum af völdum sjúkdómsins hafi fjölgað um 332, og eru þau því nú 22.764 í Englandi.
Í frétt Sky News segir að sá elsti sem lést nú hafi verið 103 ára, en 22 af hinum 332 hafi ekki verið með neina þekkta undirliggjandi sjúkdóma.
Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi birta tölur daglega, en í þeim eru jafnan dauðsföll sem áttu sér stað eitthvað fyrr, þar sem verið er að bíða eftir niðurstöðu úr krufningu eða þá staðfestingar á að viðkomandi hafi raunverulega verið með Covid-19.
Staðfest kórónuveirusmit í Bretlandi eru nú rúmlega 200 þúsund.