Innlent

Birgir Ísleifur Gunnarsson er látinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Birgir Ísleifur Gunnarsson.
Birgir Ísleifur Gunnarsson.
Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrverandi borgarstjóri, ráðherra og seðlabankastjóri, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gær, 83 ára að aldri. Morgunblaðið greinir frá.

Birgir fæddist í Reykjavík 19. júlí 1936. Foreldrar hans voru Gunnar Espólín Benediktsson, hæstaréttarlögmaður, og Jórunn Ísleifsdóttir, húsmóðir.

Birgir lauk stúdentsprófi úr Menntaskólanum í Reykjavík árið 1955 og nam lögfræði í Háskóla Íslands, þaðan sem hann lauk prófi árið 1961. Hann hlaut hæstaréttarlögmannsréttindi sex árum síðar, árið 1967.

Hann sinnti ýmsum félagsstörfum á háskólaárunum og var m.a. formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands og formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna.

Þá var Birgir framkvæmdastjóri Sambands ungra sjálfstæðismanna 1961-63 og gegndi svo embætti borgarstjóra í Reykjavík frá desember 1972 til maí 1978. Hann sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1979 til 1991 og var skipaður menntamálaráðherra til eins árs, frá 1987 til 1988. Þremur árum síðar tók hann við starfi seðlabankastjóra og starfaði sem slíkur þangað til hann fór á eftirlaun árið 2005.

Eiginkona Birgis var Sonja Backman, ritari í Skóla Ísaks Jónssonar, fædd 26. ágúst 1938. Hún lést þann 5. október síðastliðin. Börn Birgis og Sonju eru Björg Jóna, Gunnar Jóhann, Ingunn Mjöll og Lilja Dögg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×