Í Laugardalshólum býr einnig sonur Friðgeirs, tengdadóttir og barnabörn. Um 100 fjár er á bænum, auk nautgripa og hrossa. Fé hefur fækkað mikið í Laugardalnum, sem tilheyrir Bláskógabyggð en það þarf þó alltaf að fara á fjall og athuga hvort einhverjar kindur leynist ekki í skóginum og afréttinum.
„Það eru sextíu ár síðan ég fór fyrst og ég hef farið að lágmarki tvisvar á ári. Félagsskapurinn er skemmtilegastur í fjallferðum og að gera gagn, standa sig vel í smalamennsku, það er ekkert gaman nema að menn standi sig vel, það þarf að ná hverri einustu kind, sem sést“, segir Friðgeir.
Friðgeir segist muna sérstaklega eftir haustinu 1969 en þá var allt á kafi í snjó þá þegar gangnamenn fóru á fjall, snjórinn náði á kvið á hestunum.
En lömbin, hafa þau breyst mikið á þessum árum?
„Já, þetta er orðinn mikið meiri ræktun heldur en var þannig að það er betur gert fé“.

„Já, hann stendur sig vel“, segir Jóhann Gunnar og bætir við að það sé alltaf jafn skemmtilegt að fara á fjall. „Já, það er tilhlökkun hjá manni allt árið. Þegar þorrablótið í sveitinni klárast þá hlakkar manni til að komast í leitir, jólin eru líka ágæt, en það toppar þó ekkert að fara í leitir á fjalli“, segir Jóhann Gunnar, fjallkóngur og brosir sínu breiðasta.
Eftir fjallferðina var sprett af hrossunum á Ketilvöllum þar sem matarveisla beið innan dyra.
Það er ekki hægt að ljúka þessu nema með smá söng frá þremur ættliðum sem fara alltaf saman á fjall, Friðgeir, Jóhann Friðgeir og Hreinn Heiðar.
