Skoðun

Öfgamaður á ferð

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Mike Pence er öfgamaður sem kennir sig við kristna trú en boðar fábreytni, umburðarleysi, bókstafstrú og ótta­stjórnun. Í orðum sínum og verkum hefur hann beitt sér gegn réttindum kvenna og hinsegin fólks.

Þó að auðvitað þurfi að sýna embætti varaforseta Bandaríkjanna kurteisi hljóta gestgjafar Mike Pence að taka á móti honum beinir í baki. Þess er vonandi að vænta að íslenskir ráðamenn minni Pence á það verðmætamat á manneskjum sem samfélag okkar grundvallast á: virðingu og umburðarlyndi, frelsi einstaklingsins og sjálfsákvörðunarrétt fólks yfir eigin líkama og lífi. Vonandi munu íslensk stjórnvöld líka færa í tal við hann þá mannvonsku sem lýsir sér í að skilja börn frá fjölskyldum sínum, og geyma við óboðlegar aðstæður. Og loks hljótum við að vænta þess að útskýrt verði fyrir honum hvernig hamfarahlýnun ógnar lífi á Jörðinni.

Nú er árið 2019. Hafi Bandaríkjamenn einhvern tímann verið útvörður lýðræðis og mannréttinda í heiminum, sem svo sannarlega er umdeilanlegt, þá er það að minnsta kosti liðin tíð. Herlið hér á landi með Donald Trump sem æðsta yfirmann er ekki til þess fallið að vekja öryggiskennd. Þarf aðild okkar að Nató og þátttaka okkar í alþjóðlegu samstarfi um varnir sjálfkrafa að tákna hernaðarlega viðveru Bandaríkjamanna hér? Varnarsamningurinn frá 1951 kann að vera formlega enn í gildi en Bandaríkjamenn hættu einhliða að uppfylla hann árið 2006. Þeir fóru. Viljum við þá aftur? Þó að Íslendingar eigi aðild að Nató – og við séum mörg sem teljum að þjóðin eigi að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og gangast undir skuldbindingar sem því fylgja – þá er ekki þar með sagt að Bandaríkjamenn eigi að standa hér fyrir hernaðaruppbyggingu, til að styrkja stöðu sína í kapphlaupi við að græða sem mest á hamfarahlýnun Jarðar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×