Erlent

Kallar eftir afstöðu allra ríkja til Venesúela

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Pompeo á fundi öryggisráðs SÞ í dag.
Pompeo á fundi öryggisráðs SÞ í dag. Jeenah Moon/Getty
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, kallaði eftir því að ríki heimsins tækju afstöðu með eða á móti Nicolási Maduro, forseta Venesúela, á fundi öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna í dag.

Bandaríkin viðurkenna Maduro ekki lengur sem forseta landsins, heldur standa við bakið á leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Juan Guaido, og styðja tilkall hans til forsetastólsins þar til kosningar fara fram í landinu.

„Nú er kominn tími til að allar þjóðir taki afstöðu. Ekki meiri töf, ekki fleiri leiki. Annað hvort ertu með frelsisöflunum, eða þú stendur með Maduro og ringulreið hans,“ sagði Pompeo á fundinum sem kallað var til vegna ástandsins í Venesúela.

Rússar, sem eins og Bandaríkin eiga fast sæti í öryggisráðinu, hafa beitt sér gegn tilraunum Bandaríkjamanna til þess að koma Maduro frá völdum og saka Bandaríkjamenn um að styðja við valdaránstilraun.

Því virðist stefna í það að Venesúela verði enn eitt púslið í langvarandi deilum Bandaríkjanna og Rússlands á alþjóðavettvangi.


Tengdar fréttir

Skiptast í fylkingar vegna Venesúela

Stjórnarandstaðan í Venesúela með Juan Guaidó, starfandi forseta [að nafninu til], í fararbroddi leitast nú við að halda áfram að þrýsta á ríkisstjórn Nicolás Maduro forseta eftir fjöldamótmæli miðvikudagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×