Erlent

Bretar lýsa áhyggjum af meintum njósnara í haldi Rússa

Kjartan Kjartansson skrifar
Whelan var handtekinn í Moskvu fyrir viku.
Whelan var handtekinn í Moskvu fyrir viku. Vísir/EPA
Utanríkisráðherra Bretlands varaði rússnesk stjórnvöld við því að nota einstaklinga sem peð í milliríkjadeilum í kjölfar þess að maður með tvöfalt ríkisfang var handtekinn í Moskvu á föstudag og sakaður um njósnir.

Paul Whelan er með bandarískt og breskt ríkisfang. Öryggissveit Rússlands (FSB) tók hann höndum á föstudag og hóf rannsókn á honum vegna meintra njósna hans. Hún hefur ekki greint frekar frá hvað Whelan á að hafa gert af sér.

„Við höfum miklar áhyggjur af Paul Whelan, við höfum boðið fram aðstoð ræðismanns,“ sagði Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, um mál Whelan í dag, að því er segir í frétt Reuters.

Fjölskylda Whelan segir að hann hafi verið í Rússlandi fyrir brúðkaup og sé blásaklaus af njósnum. Vangaveltur hafa verið um að ríkisstjórn Vladímírs Pútín forseta hafi látið handtaka hann til að knýja á um skipti á honum og Maríu Butina, rússneskri konu sem hefur játað njósnir í Bandaríkjunum.

Hunt sagði það til gagngerrar skoðunar hvort að breskir borgarar þyrftu að hafa áhyggjur af öryggi sínu í Bretlandi. Ráðuneyti hans endurskoði reglulega ráðleggingar sínar um ferðalög erlendis.

„Ef við sjáum ástæðu til að breyta þeim þá gerum við það,“ sagði Hunt.

Samskipti Bretlands og Rússlands hafa verið stirð síðustu mánuði og ár, ekki síst eftir að eitrað var fyrir rússneskum fyrrverandi njósnara í bænum Salisbury í mars í fyrra. Breska ríkisstjórnin sakar stjórnvöld í Kreml um að hafa staðið að tilræðinu en því hafna þau algerlega.


Tengdar fréttir

Meintur njósnari sigldi um eyjar Breiðafjarðar

Íbúar í Stykkishólmi urðu heldur en ekki hissa þegar þeir sáu meintan bandarískan njósnara í haldi Rússa sýndan í umhverfi Breiðafjarðar í heimspressunni í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×