Sjá einnig: Trump við sjö ára dreng: „Trúir þú enn á jólasveininn?“
Atvikið átti sér stað þegar forsetahjónin tóku við símtölum frá börnum sem reyndu að hringja inn til Loftvarnaeftirlits Bandaríkjanna (Norad) sem fylgist með ferðum jólasveinsins á hverju ári. Stofnunin er enn starfandi þrátt fyrir að alríkisstjórn Bandaríkjanna liggi nú að hluta til niðri vegna kröfu Trump forseta um fjárveitingu fyrir landamæramúr á suðurlandamærunum.
Í símtalinu við Collman spurði Trump stúlkuna hversu gömul hún væri og hvernig gengi í skólanum áður en hann spurði hana hvort hún tryði enn á jólasveininn. Þegar hún svaraði játandi sagði hann það vera á „mörkunum“ við þennan aldur.
Að sögn Collman hafði hún aldrei heyrt orðið „marginal“ sem forsetinn notaði, sem mætti þýða sem „á mörkunum“. Hún lét símtalið þó ekki á sig fá og skildi eftir smákökur og súkkulaðimjólk út í glugga fyrir jólasveininn ásamt systkinum sínum. Morguninn eftir var maturinn farinn og gjafir komnar undir tréð og því ólíklegt að orð forsetans hafi dregið úr jólasveinatrú litlu stúlkunnar þessi jólin.