Erlent

Sakar Demókrata um tölvuárás eftir að þeir bentu á galla

Samúel Karl Ólason skrifar
Brian Kemp, frambjóðandi Repúblikanaflokksins til ríkisstjóra í Georgíu.
Brian Kemp, frambjóðandi Repúblikanaflokksins til ríkisstjóra í Georgíu. AP/John Bazemore
Brian Kemp, frambjóðandi Repúblikanaflokksins til ríkisstjóra í Georgíu, og innanríkisráðherra ríkisins, hefur sakað Demókrata um að hafa gert tölvuárás á kosningakerfi ríkisins. Þrátt fyrir að það hafi verið Demókratar, og aðrir, sem bentu á öryggisgalla í kerfinu. Samkvæmt könnunum er lítill munur á fylgi Kemp og Stacey Abrams, sem er í framboði fyrir Demókrataflokkinn.

Kemp, sem er hæst setti embættismaður ríkisins sem kemur að kosningunum og er sjálfur í framboði til ríkisstjóra, gaf út yfirlýsingu í gærkvöldi um að hann væri að rannsaka hvort Demókratar hefðu brotið sér leið inn í kosningakerfi ríkisins, örskömmu fyrir kosningar. Hann færði engar sannanir fyrir ásökun sinni né sagði hann um hvað meint brot Demókrata eiga að snúast.

Talsmaður Kemp sagði í gærkvöldi að Demókratar hefðu reynt að nýta sér galla í skráningarkerfi kosninganna. Kemp hefur vísað ásökununum til Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI.

Kemp varpaði ásökununum fram eftir að lögmenn, sem hafa höfðað mál gegn Kemp á vegum kjósenda Georgíu, vöruðu hann við því að almennur borgari hefði bent þeim á öryggisgalla í kerfinu. Demókratar í ríkinu höfðu sömuleiðis bent yfirvöldum á gallann, áður en þeir voru sakaðir um að hafa reynt að nýta sér hann.

Stracey Abrams, mótframbjóðandi Kemp.AP/John Bazemore
Demókratar í Georgíu hafa lengi gagnrýnt Kemp fyrir að stýra kosningum sem hann er í framboði í og hafa kallað eftir afsögn hans. Þeir segja þessar nýjustu ásakanir vera alfarið rangar og segja þær til marks um hvernig Kemp misnoti vald sitt og hann sé að nota þær til að hylma yfir öryggisgalla í kerfi sem hann hafi umsjón yfir.

Abrams, sem yrði fyrsti þeldökki ríkisstjóri Georgíu, hefur gagnrýnt Kemp harðlega fyrir að reyna að koma í veg fyrir að tilteknir hópar samfélagsins, eins og þeldökkir, kjósi. Hann hafði fyrirskipað að utankjörfundaratkvæði yrðu dæmd ógild ef undirskrift þeirra væri ekki í fullu samræmi við skráningu kjósenda, jafnvel þó skráningin væri röng en ekki undirskriftin.

Sjálfur hefur hann sagt þessar ásakanir rangar og heldur hann því fram að Demókratar og aðrir aðilar séu að reyna að hjálpa fólki að kjósa með ólöglegum hætti.

AP segir eftirlitsaðila og aðra hafa áhyggjur af því að ástandið í Georgíu bendi til þess að hver sá sem tapar kosningunum muni ekki samþykkja niðurstöðuna.



Ekki í fyrsta sinn

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kemp varpar fram ásökunum sem þessum án sannana. Árið 2016 sakaði hann ríkisstjórn Barack Obama, þáverandi forseta, um að hafa reynt að brjóta sér leið inn í kosningakerfi Georgíu. Rannsókn leiddi í ljós að ekkert var til í þeim ásökunum.

Georgía er eitt af fimm ríkjum Bandaríkjanna sem reiða á eldri kosningavélar sem skilja ekki eftir sig marktæka slóð um atkvæðafjölda. Sérfræðingar hafa um árabil gagnrýnt notkun vélanna vegna þess hve auðvelt það sé að hakka þær og af því þær skilja ekki neina slóð eftir sig ef vandamál koma upp.

Einn öryggissérfræðingur sem AP ræddi við segir að auðvelt ætti að vera fyrir sérfræðing að finna gallann sem um ræðir. Ljóst sé að öryggissérfræðingur hafi aldrei verið fengið til að fara yfir kosningakerfi Georgíu og öryggi þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×