Faith Rogers hefur kært R&B söngvarann R. Kelly. Hún segir að hann hafi beitt sig kynferðislegu og andlegu ofbeldi auk þess sem hann á að hafa vitandi vits smitað hana af Herpes-veirunni.
Hún lýsir meintu kynferðisofbeldi sem „ekki með samþykki, sárt og ofbeldisfullt.“ Þá greinir hún frá því að rapparinn hafi án hennar samþykkis myndað hana í „afbrigðilegum og vafasömum kynferðislegum aðstæðum“.
Að því er fram kemur á vef Guardian hefur Kelly ekki enn svarað ásökunum sem bornar eru á hendur honum en í hvert sinn sem kona hefur stigið fram og greint frá reynslu sinni af R. Kelly hefur hann staðfastlega neitað sök. Hann kallar ásakanir á hendur sér „gráðugt, meðvitað og illgjarnt samsæri ætlað til að lítillækka sig, fjölskyldu sína og konurnar sem hann umgengst“.
Rogers segir Kelly hafa læst sig inn í ýmsum herbergjum og bílum til þess að refsa henni fyrir að hafa ekki náð að „fullnægja honum kynferðislega og fyrir að ætluð brot á siðareglum sem hann skrifaði“.

Frásögn Rogers svipar mjög til fjölda frásagna kvenna sem var haldið gegn vilja sínum í „sértrúarsöfnuði“ söngvarans. Fjöldi kvenna steig fram í fyrrasumar með ásakanir á hendur R. Kelly. Honum var gefið að sök að hafa heilaþvegið konur, beitt þær harðræði og kynferðislegu ofbeldi. Hann er sagður skipa þeim að slíta á öll tengsl við fjölskyldu og vini.
Sjá frétt Vísis um hóp kvenna sem steig fram með ásakanir á hendur R. Kelly hér.
Upphafskona Metoo byltingarinnar, Tarana Burke, segir að ástæðan fyrir því að almenningur hafi ekki lokað á söngvarann sé sú að meintir brotaþolar eru svartar konur. Ava DuVerney, leikstjóri kvikmyndarinnar A Wrinkle in Time, tekur stöðu með kynsystrum sínum og segir velgengni R. Kellys velta á ósýnileika svartra kvenna og stúlkan í samfélaginu. Svartar konur séu þjóðfélagsstétt sem hafi löngum hvorki átt skilið vernd né umhyggju. Svartar konur hafa efnt til byltingar undir myllumerkinu þöggum niður í R. Kelly eða #muterkelly.
Sjá frétt Vísis um baráttu svartra kvenna hér.
Eitthvað virðist hafa þokast áfram í baráttu svartra kvenna fyrir réttlæti því tónlistarveitan Spotify ákvað á dögunum að fjarlægja lög söngvarans af lagalistum sínum. Talsmenn Spotify segja að lagalistar veitunnar eigi að endurspegla gildi fyrirtækisins. Ákvörðunin byggir á nýrri stefnu veitunnar um „hatursefni og hatursfulla hegðun“.