Skoðun

Íbúalýðræði í borg

Dóra Magnúsdóttir skrifar
Lýðræði er þegar fólkið ræður, en ekki einhver einn eða fámennur hópur“. Svona var útskýrt á Krakka-RÚV og er ekki verri skilgreining en margar aðrar. Gengið verður til sveitarstjórnakosninga í vor; lýðræðisleg aðgerð sem byggir á fulltrúalýðræði. En aðrar leiðir eru tækar til að teygja valdið yfir til fólksins þannig að íbúarnir sjálfir geti haft meiri áhrif á ýmsa þætti í rekstri og mótun; skipulag, umhverfi, skólamál, félagslega þætti og margt fleira. Reykjavíkurborg stefnir að auknu íbúalýðræði með lýðræðisstefnu sem er í mótun og hefur það að markmiði að leggja grunninn að skýrum og gagnsæjum leikreglum. Svo segir í sveitarstjórnarlögum: „Sveitarstjórn skal leitast við að tryggja íbúum sveitarfélagsins og þeim sem njóta þjónustu þess möguleika til að taka þátt í og hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins og undirbúning stefnumótunar.“

Þannig er í lögunum opnað á að borgarstjórn afsali sér hluta af valdi sínu til borgarbúa. Enda er litið svo á að þar sem vald kjörinna fulltrúa er fengið frá almenningi sé eðlilegt að borgarstjórn leitist við að virkja þátttöku borgarbúa. Sem er einmitt mergurinn málsins í tengslum við íbúalýðræði; virkja þátttöku og valdefla borgarbúa og auka traust þeirra til stjórnsýslu borgarinnar með því að veita þeim innsýn í hvernig borgarkerfið virkar, efla lýðræðisvitund borgarbúa til að styrkja félagsauð í borginni.

Ýmsar leiðir eru færar í þessu tilliti fyrir utan íbúakosningar um einstök málefni. Virk upplýsingagjöf er lykilatriði fyrir utan sértæk verkefni eins og til dæmis íbúaverkefnið Hverfið mitt en þátttaka í því hefur aukist ár frá ári. Vel hefur verið hlustað eftir gagnrýni og við henni brugðist. Á sl. ári voru settir töluvert meiri fjármunir í Hverfið mitt og eru fjölmargar borgbætandi framkvæmdir bein afleiðing hugmynda íbúa í verkefninu. Aðrar leiðir til íbúalýðræðis eru reglulegir borgarafundir, aukin þátttaka íbúa í fjárhagsáætlanagerð og það sem ég tel sumpart vera mikilvægasta úrræðið; margefld hverfisráð með aukinni þátttöku íbúasamtaka hverfanna. Hverfisráð borganna eiga að vera fyrsta gátt íbúa í hverfunum fyrir samráð og hafi þau meira forræði yfir framkvæmdum og aukna ábyrgð með upplýsingamiðlun hafa þau burði til að gegna mun mikilvægara hlutverki í lýðræðisþróun Reykjavíkur.

 

Höfundur býður sig fram í 4. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×