Skoðun

Nú er lag að gera rétt

Haraldur Ólafsson skrifar

Í margar kynslóðir hafa Katalónar búið við þær aðstæður að vera þegnar í ríki þar sem aðrir en Katalónar ráða ferðinni. Lög eru sett og dómar upp kveðnir í fjarlægri borg, af fólki sem talar aðra tungu. Slæmir og góðir tímar hafa skipst á. Á slæmum tímum hefur verið vont að vera Katalóni í Katalóníu, miklu verra en að vera Íslendingur á Íslandi þegar valdið var í Danmörku.



Það er margsannað, ekki síst á Íslandi, að það er ljómandi góð hugmynd að þjóðir stjórni sér sjálfar. Það má sjá jafnskýrt í skæru rómantísku ljósi og í grámósku hversdagslegrar skynsemi. Áralöngum tilraunum Katalóna til að heimta þennan sjálfsagða rétt hefur nú verið svarað með því að berja mörg hundruð borgara sem fengust við það eitt að krota á miða. Því kroti hafði áður verið lýst sem merkingarlausu föndri, en ofbeldismönnunum þótti samt rétt að undirstrika merkingarleysið með því að berja fólkið svo eftir yrði tekið. Það er deginum ljósara að Katalónar geta ekki lengur deilt sæng með svoleiðis mönnum.



Nú er lag fyrir Íslendinga að viður­kenna sjálfstæði Katalóna. Margt mælir með. Á móti má segja að rispa verði á sjálfsmynd þeirra sem byggja tilveru sína á að vera þegnar í stórveldi. Þeir hryggjast þegar molnar úr stórveldinu og meta gleði sína yfir stærð ríkisins meira en líf og heilsu þeirra sem vilja fara. Kannski sterkustu rökin fyrir því að styðja Katalóna til sjálfstæðis felist í framlagi til uppeldis þessa fólks.

Svo sakar ekki að Katalónar munu muna Íslendingum stuðninginn næstu þúsund árin.

 



Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×