Rannsókn lögreglunnar í London hefur leitt í ljós að eldurinn í Grenfell-turni í síðustu viku átti upptök sín í ísskáp. Þá stóðust klæðning og einangrun byggingarinnar ekki öryggiskröfur. Lögreglan skoðar hvort rétt sé að rannsaka brunann sem manndráp. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.
Ísskápurinn var frá fyrirtækinu Hotpoint og hafa yfirvöld í Bretlandi krafist þess að öryggismælingar fari fram á slíkum ísskápum hið snarasta.
Talið er að allt að 79 manns hafi látið lífið í brunanum, en borin hafa verið kennsl á níu manns, níu eru enn á sjúkrahúsi og þrír á gjörgæslu.
Lögregla telur ekki að eldurinn hafi kviknað af ásettu ráði en að hann hafi dreifst ískyggilega hratt. Bráðabirgðarannsókn á einangrun byggingarinnar leiddi í ljós að hún brann hratt og mun hraðar en klæðningin.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur beðist opinberlega afsökunar á brunanum í Grenfell-turni en stjórn Íhaldsflokksins hefur verið sökuð um að hunsa ábendingar dánardómstjóra um að endurskoða þyrfti byggingarreglugerðir um brunavarnir.
Í Grenfell-turni voru 120 félagslegar íbúðir á vegum hins opinbera en talið er að þar hafi búið á milli 400 og 600 manns. Breska ríkisstjórnin hefur útvegað eftirlifandi íbúum Grenfell-turnsins nýjar félagslegar íbúðir.
