Trump var spurður hvort hann muni una niðurstöðunni ef Clinton ber sigur úr býtum í kosningunum, í síðustu sjónvarpskappræðunum fyrir forsetakjörið í nóvember. Svar hans var einfalt; Það verði einfaldlega að koma í ljós hvort hann muni una niðurstöðunni.
Innan við þrjár vikur eru í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, en þær fara fram 8. nóvember næstkomandi. Fylgi Trump hefur dalað töluvert að undanförnu, annars vegar eftir að myndskeið birtist af honum tala með niðrandi hætti um konur og hins vegar eftir að hópur kvenna steig fram og greindi frá kynferðisbrotum af hans hálfu.
Báðir frambjóðendur leggja nú allt sitt í baráttuna og gáfu þau ekkert eftir í kappræðunum í nótt, þrátt fyrir að kappræðurnar hefðu meira og minna einkennst af frammíköllum og rifrildum. Frambjóðendurnir tveir neituðu jafnframt að takast í hendur við upphaf og lok kappræðnanna.
Trump var í tvígang spurður að því hvort hann muni virða úrslitin ef Clinton vinnur kosningarnar, en fátt var um svör. Clinton sagði ásakanir hans um meinta hagræðingu úrslitanna alvarlegar, enda sé hann að tala niður lýðræði landsins.
Stóryrði fengu að fjúka í kappræðunum í nótt þar sem Trump kallaði Clinton „andstyggilega konu“ og Clinton sagði Trump strengjabrúðu Pútíns Rússlandsforseta.