Íslenski boltinn

Landsliðshetja styrkti krabbameinsveikan strák um 100.000 krónur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Baldvin Rúnarsson glímir við krabbamein en er þakklátur fyrir stuðning Krabbameinsfélags Akureyrar og Jóhanns Bergs.
Baldvin Rúnarsson glímir við krabbamein en er þakklátur fyrir stuðning Krabbameinsfélags Akureyrar og Jóhanns Bergs. mynd/hlaupastyrkssíða Baldvins
Baldvin Rúnarsson, krabbameinsveikur fótboltastrákur frá Akureyri, fékk rausnarlegan styrk frá Jóhanni Berg Guðmundssyni, landsliðsmanni í fótbolta, fyrir hálfmaraþonið sem hann hleypur til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar í Reykjavíkurmaraþoninu.

Baldvin er Þórsari sem spilaði fyrir Magna á Grenivík árið 2014 en fyrir þremur árum greindist hann með heilaæxli sem hann er enn að berjast við.

Hann tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og vill safna einni milljóna króna til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar sem bjargaði honum um íbúð þegar Baldvin þurfti að flytja til Reykjavíkur á meðan geisla- og lyfjameðferðinni stóð.

Jóhann Berg lék alla leiki Íslands á EM.vísir/getty
Rausnarlegur sóknarmaður

Jóhann Berg styrkir Baldvin og þar af leiðandi Krabbameinsfélag Akureyrar um 100.000 krónur en Jóhann skildi eftir einföld skilaboð á söfnunarsíðu Baldvins: „Vel Gert gamli!“

Myndarlegur styrkur Jóhanns Bergs lyfti Baldvini upp í fimmta sæti yfir þá sem hafa safnað mest en hann hefur í heildina safnað 386.500 krónum þegar þetta er skrifað. Hann er þó enn ekki hálfnaður að takmarki sínu en hægt er að gera eins og Jóhann og styrkja Baldvin með því að fara á síðuna hans á vef Hlaupastyrks.

Baldvin þakkar Jóhanni Berg fyrir sig á Twitter þar sem hann einfaldlega sýnir skjámynd af upphæðinni sem landsliðshetjan lagði til og skrifar „auðmjúkur“ á ensku í kassamerki eða #humbled.

Jóhann Berg var í fréttunum fyrr í þessari viku þegar hann gekk frá vistaskiptum til Burnley en hann mun á næstu leiktíð spila í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn eftir að vera langbesti leikmaður Charlton í B-deildinni á síðustu leiktíð og standa sig vel með íslenska landsliðinu í ævintýrinu í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×