Íslenski boltinn

„Einn af þeim bestu og skemmti­legustu sem við höfum séð síðustu ár“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hallgrímur Mar Steingrímsson með boltann í bikarúrslitaleiknum þar sem KA sigraði Víking, 2-0.
Hallgrímur Mar Steingrímsson með boltann í bikarúrslitaleiknum þar sem KA sigraði Víking, 2-0. vísir/diego

Atli Viðar Björnsson segir að KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson sé einn besti leikmaður efstu deildar síðasta áratuginn eða svo.

Hallgrímur missti af byrjun tímabilsins vegna veikinda en það voru fyrstu leikirnir sem hann missir af síðan KA byrjaði aftur að spila í efstu deild 2017. Hann hafði leikið 160 leiki í röð í efstu deild án þess að missa úr leik.

Hallgrímur lék 22 leiki í sumar og skoraði níu mörk, flest allra í liði KA. Hann er langmarkahæsti leikmaður KA í efstu deild með 62 mörk. Þá skoraði Hallgrímur tvö mörk í fjórum bikarleikjum í sumar en KA-menn urðu einmitt bikarmeistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

„Hann hefur skilað ótrúlega góðu verki fyrir KA síðan hann gekk til liðs við þá og sérstaklega eftir að hann kom úr Víkinni, þessari stuttu ferð sem hann fór þangað,“ sagði Atli Viðar þegar tímabilið 2024 í Bestu deild karla var gert upp í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar.

„Hann hefur verið ótrúlega flottur þjónn fyrir KA og sannarlega einn af bestu og skemmtilegustu leikmönnum sem við höfum séð í deildinni síðustu tíu ár eða svo.“

KA endaði í 7. sæti Bestu deildarinnar, annað árið í röð, en varð bikarmeistari eins og áður sagði. KA-menn unnu Víkinga, 2-0, í bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvelli.

Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan. Einnig má hlusta á þáttinn á Spotify og öðrum hlaðvarpsveitum.


Tengdar fréttir

„Júlíglugginn kostaði FH þetta tímabil“

Atli Viðar Björnsson segir að slæm leikmannakaup FH í félagaskiptaglugganum um mitt sumar hafi gert út um möguleika liðsins á að vera í baráttu um Evrópusæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×