Íslenski boltinn

Gregg: Erum að spila góðan fótbolta

Gregg Ryder þjálfari Þróttar.
Gregg Ryder þjálfari Þróttar. Vísir/Stefán
Gregg Ryder þjálfari Þróttar var að vonum sáttur eftir sigurinn gegn Gróttu og sagði lið sitt hafa nálgast leikinn á fagmannlegan hátt.

„Mér fannst við fagmannlegir. Við vildum skora snemma og ekki gefa þeim neinar vonir. Við kláruðum þá svo vel í seinni hálfleik og ég er mjög ánægður með hvernig við nálguðumst leikinn í kvöld,“ sagði Ryder í samtali við Vísi að leik loknum.

„Ég sagði við strákana fyrir leikinn að við gætum gert okkur þetta auðvelt með því að skora snemma og spila vel. En ef við myndum ekki spila vel þá gæti Grótta auðveldlega strítt okkur. Þeir hafa haldið markinu hreinu í fjórum leikjum í 2.deildinni og eru með stóra stráka sem eru sterkir í loftinu. En við vorum vel undirbúnir og nálguðumst verkefnið af fagmennsku,“ bætti Ryder við.

Thiago Pinto Borges kom inn á 54.mínútu fyrir Tonny Mawejje sem hafði átt fremur erfitt uppdráttar í fyrri hálfleiknum.

„Sóknarleikur okkar varð beinskeyttari þegar Thiago kom inn. Vandamálið í fyrri hálfleik var að við spiluðum of mikið til hliðar og á milli kanta. Thiago átti að koma inn, fá boltann aftarlega og sækja fram á við. Mér fannst við eiga að skapa fleiri færi í fyrri hálfleik miðað við hvað við vorum mikið með boltann,“ sagði Gregg og talaði um að það væri mikilvægt að halda áfram á sigurbraut.

„Við unnum á sunnudaginn gegn ÍA og aftur nú í kvöld. Við þurfum að halda áfram að bæta okkur og við erum að spila góðan fótbolta þessa dagana. Við þurfum að halda því áfram í deildinni og stöðugleiki er lykillinn fyrir okkur,“ sagði Gregg Ryder þjálfari Þróttar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×