Í bréfinu segir að Kú mótmæli harðlega þeirri hækkun sem hafi verið ákveðin á ógerilsneiddri hrámjólk og tók gildi þann 1. ágúst 2015. Auk beiðninnar um fund, er óskað eftir því að Atvinnuveganefnd fari yfir og skoði „ámælisverð og skaðleg vinnubrögð Landbúnaðarráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar og Verðlagsnefndar búvara. Sem hafa beinlínis unnið gegn samkeppni á mjólkurvörumarkaði og hafa ítrekaðar beiðnir um gögn og upplýsingar verið hundsaðar svo árum skiptir,“ eins og segir í bréfinu.
Í samtali við fréttastofu segir Ólafur að Jón Gunnarsson hafi tjáð honum að fundur yrði haldinn, en ekki liggur fyrir hvenær. Þar að auki hefur Ólafur óskað eftir því að Umboðsmaður Alþingis skoði vinnubrögð ráðherra og nefndarinnar gagnvart Kú.
Í bréfinu segir að fyrirtækið geti ekki búið við 17 prósenta álag á ógerilsneidda hrámjólk og óskað sé eftir því að Atvinnuveganefnd skoði eftirfarandi atriði:
- Voru erindin lögð fyrir verðlagsnefnd?
- Hvers vegna hefur þeim ekki ennþá verið svarað?
- Með hvaða hætti eru erindi færð til bókar í ráðuneytinu og þeim fylgt eftir?
- Óskað er eftir því að Atvinnuveganefnd kalli eftir afriti af öllum fundargerðum, gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina, tölvupóstum til og frá fulltrúum nefndarinnar og starfsmanna hennar og fylgisgögnum frá árinu 2007 og til dagsins í dag og geri þau opinber og aðgengileg.
- Hvers vegna svarar ráðherra ekki erindum og beiðnum sem til hans er beint svo sem um fundi eða annað svo árum skipti?
- Að nefndin fái óháða aðila til af yfirfara verðlagningu á hrámjólk og ofteknar greiðslur af hálfu Mjólkursamsölunnar á tímabilinu 1.janúar 2007 til 14.ágúst 2015.