Innlent

Færir nýársboðið fram á þrettándann

Agnar Már Másson skrifar
Halla Tómasdóttir, fer í embættisferð til Bretlands dagana 19. til 21. nóvember 2025.
Halla Tómasdóttir, fer í embættisferð til Bretlands dagana 19. til 21. nóvember 2025. Vísir/Vilhelm

Nýársboð forseta verður haldið á þrettánda degi jóla frekar en á nýársdag eins og hefð gerir ráð fyrir. Forsetaritari segir þetta gert til þess að komast til móts við ábendingar gesta sem vilji frekar verja nýársdegi með fjölskyldu sinni.

Mbl.is greindi fyrst frá en hefð er fyrir því að forseti lýðveldisins haldi hátíðlegt nýársboð á Bessastöðum á fyrsta degi hvers árs. Þangað mætir gjarnan áberandi fólk víða úr íslensku samfélagi, svo sem stjórnmálamenn og listamenn, til að fagna nýju ári. Seinna um daginn er fálkaorðan svo afhent.

Þetta er í annað sinn sem Halla Tómasdóttir forseti heldur nýársboð en samkvæmt upplýsingum frá Bessastöðum verður boðið haldið á þrettánda degi jóla, 6. janúar, frekar en 1. janúar. 

Sif Gunnarsdóttir forsetaritari útskýrir í samtali við Vísi að þetta sé gert til þess að mæta óskum og ábendingum frá boðsgestum sem hafi lýst því að þeir vilji heldur verja deginum með sínum nánustu. Afhending fálkaorðu verði aftur á móti enn á nýársdag eins og hefð er fyrir.

Ríkisráðsfundur verður enn haldinn að vanda hinn 30. desember og forsetinn mun enn flytja nýársávarp á sjálfan nýársdag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×