Lögin voru samþykkt á þriðjudag með 44 atkvæðum gegn einu. Helsta nýmæli þeirra er að vald til að ákveða nöfn er fært nær almenningi með því að ábyrgð og skráning nafngifta er færð til sveitarfélaga.
„Ef nýtt náttúrufyrirbæri þarfnast nafns ber viðkomandi sveitarstjórn að hafa frumkvæði að nafngift að fenginni umsögn örnefnanefndar,“ segir í 7. málsgrein nýju örnefnalaganna. „Tillögu að nýju nafni ber að senda ráðherra til staðfestingar. Þegar ráðherra hefur staðfest nýtt nafn skal sveitarstjórn eða eftir atvikum ráðherra upplýsa Landmælingar Íslands um nýja nafngift,“ segir ennfremur.
Fjörleg umræða varð um nafn á fyrstu dögum eldgossins í Holuhrauni. Þannig bárust um tvöhundruð uppástungur þegar Stöð 2 og Vísir kölluðu eftir tillögum frá almenningi í byrjun september. Tvær stóðu þá upp úr, 21 tillaga barst um nafnið Drekahraun og 14 ábendingar um nafnið Holuhraun. Tekið skal fram að þá var gosið ennþá á langri gossprungu og ekki hafði þá myndast sá mikli gígur sem nú blasir við né var stærð hraunsins orðin jafn mikil og nú er orðin staðreynd.

Þá vaknar sú spurning hvort sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs gæti haft aðkomu að málinu. Sveitarfélagamörk Skútustaðahrepps og Fljótsdalshéraðs liggja nefnilega um farveg Jökulsár á Fjöllum. Í eldgosinu flæddi hraun út í farveginn og þrýsti honum lengra til austurs. Hugsanlegt er að austasta tota hraunsins hafi náð að teygja sig yfir gömlu sveitarfélagamörkin.
