Handbolti

Sverre: Þriðja stríðið á nokkrum dögum

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
Það verður heldur betur nóg að gera hjá Sverre Jakobssyni og félögum í íslensku vörninni í kvöld. Spænsku leikmennirnir eru mikil tröll og enginn hægðarleikur að hafa hemil á þeim.

„Þeir eru ekkert ósvipaðir Ungverjunum en þeir eru kannski skrefinu framar í flestum þáttum handboltans. Vinna mikið tveir á tvo og nýta klókindi sín til hins ýtrasta. Við verðum að vera klárir frá fyrstu sekúndu,“ sagði Sverre.

Hann þarf ekki að glíma við línutröllið Julen Aguinagalde þar sem hann er frá vegna meiðsla. Munar um minna fyrir Spánverjana en Sverre segist samt muna sakna þess að slást við hann.

„Það er alveg furðugaman að kljást við hann en ég get ekki neitað að það er gott að losna við svona skrímsli. Hinir tveir eru samt kröftugir, stórir og sterkir líka þannig að þetta verður ekkert auðveldara þannig. Þetta verður bara þriðja stríðið í þessari keppni á nokkrum dögum,“ sagði Sverre og hló við eins og svo oft áður.

Noregur sýndi í sínum leik gegn Spánverjum að það er hægt að gera ýmislegt gegn þeim. „Við teljum okkur vera það góða að við getum gert meira en að stríða öllum liðum. Við getum líka lent í hinu. Við verðum að vera vel innstilltir og ég efast ekki um að við verðum það,“ sagði Sverre Jakobsson á æfingu liðsins í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×