Efsta lið NBA deildarinnar, Detroit Pistons var ekki í vandræðum með Atlanta Hawks á útivelli í nótt og sigraði 117-89. Chauncey Billups skoraði 23 stig í jöfnu liði Detroit, en Al Harrington skoraði 21 stig fyrir Atlanta. Detroit hefur unnið 31 leik og tapað aðeins 5 í vetur.
Indiana lagði Charlotte á heimavelli sínum 98-92. Anthony Johnson skoraði 27 stig og hirti 10 fráköst fyrir Indiana, en þrír leikmenn voru efstir og jafnir með 15 stig hjá Charlotte.
Orlando lagði Washington 106-98 þar sem Steve Francis lék með liðinu á ný eftir leikbann. Jameer Nelson skoraði 22 stig fyrir Orlando en Antawn Jamison skoraði 30 stig og hirti 12 fráköst hjá Washington.
New Jersey lagði Philadelphia 101-90. Vince Carter skoraði 31 stig, átti 10 stoðsendingar og hirti 8 fráköst hjá New Jersey, en Allen Iverson skoraði 36 stig fyrir Philadelphia og meiddist reyndar á hné í lokaleikhlutanum og haltraði eftir það.
Boston lagði Minnesota 103-96. Paul Pierce skoraði 25 stig fyrir Boston en Kevin Garnett skoraði 29 stig og hirti 13 fráköst hjá Minnesota.
New Orleans vann góðan sigur á Memphis 87-79. Nýliðinn Chris Paul skoraði 16 stig og gaf 9 stoðsendingar hjá New Orleans, en Mike Miller skoraði 21 stig fyrir Memphis.
Chicago sigraði New York 106-104. Jamal Crawford skoraði 19 stig fyrir New York og Ben Gordon skoraði 32 stig fyrir Chicago.
Dallas valtaði yfir lánlaust lið Houston Rockets 103-76, þar sem varamenn liðanna léku allan síðasta fjórðunginn eftir að Dallas hafði löngu gert út um leikinn. Dirk Nowitzki fór á kostum hjá Dallas og skoraði 29 stig, en Rafer Alston skoraði 17 stig fyrir Houston. Leikurinn var í beinni útsendingu á NBA TV.
San Antonio vann nauman sigur á Milwaukee á heimavelli 95-93. Tim Duncan skoraði 27 stig fyrir San Antonio og Michael Redd skoraði 26 fyrir Milwaukee.
Carmelo Anthony hafði betur í árlegu einvígi sínu við LeBron James og félaga þegar Denver lagði Cleveland 90-89 í hörkuleik í Denver. Anthony skoraði 17 stig eins og Earl Boykins, en LeBron James skoraði 24 stig, hirti 11 fráköst og gaf 9 stoðsendingar fyrir Cleveland, sem hafði tækifæri til að vinna leikin í lokin.
Loks vann Phoenix góðan sigur á LA Clippers 112-102. Shawn Marion skoraði 30 stig og hirti 17 fráköst fyrir Phoenix og Steve Nash skoraði 20 stig og gaf 18 stoðsendingar. Sam Cassell skoraði 27 stig fyrir Clippers.