Innlent

Játaði meira og meira eftir því sem á leið

Jón Þór Stefánsson skrifar
Meint brot mannsins voru framin á leikskólanum Múlaborg í Reykjavík.
Meint brot mannsins voru framin á leikskólanum Múlaborg í Reykjavík. Vísir/Anton Brink

Framburður manns sem ákærður er fyrir kynferðisbrot gegn barni sem hann mun hafa framið meðan hann starfaði á leikskólanum Múlaborg í Reykjavík þótti að mati lögreglu samræmast frásögn barnsins af meintum brotum hans. Maðurinn játaði í skýrslutökum hjá lögreglu að hafa brotið tvívegis á barninu.

Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu. Úrskurðirnir eru frá október og nóvember á síðasta ári, en hafa nú verið birtir á vef Landsréttar. Í þeim eru atvik málsins rakin.

Þar kemur fram að þriðjudaginn 12. ágúst hafi móðir umrædds barns, sem er stúlka, haft samband við lögreglu vegna málsins. Fyrr um daginn hafði móðirin sótt dóttur sína á leikskólann, sem hafi sagt henni frá því að „svolítið skrýtið“ hefði átt sér stað á leikskólanum.

Dóttirin greindi þá móður sinni frá því að tiltekinn starfsmaður leikskólans hefði sett „punginn í píkuna hennar í leikskólanum“.

Handtekinn samdægurs

Síðar sama dag, rétt áður en klukkan sló níu að kvöldi til, var maðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð. Þar var tekin skýrsla af honum þar sem hann játaði meira og meira eftir því sem á leið.

Maðurinn var í fyrstu spurður út í samskipti sín við stúlkuna og sagðist hann hafa hjálpað henni á salerninu þennan dag.

Svo sagði hann að hún hafi séð hann pissa á starfsmannasalerninu nokkrum sinnum þegar hann hafi gleymt að læsa að sér.

Aðspurður frekar út í málið játaði hann að hafa tekið stúlkuna upp, meðan hún var buxnalaus, „snúið henni við þannig hún sneri rassinum að klofi hans og hafi hann gert „hump“ hreyfingar í nokkrar sekúndur.“

Breytt frásögn

Hann breytti síðar þeirri frásögn sinni, og viðurkenndi að hafa sett getnaðarlim sinn milli læra stúlkunnar og viðhaft samfarahreyfingar.

Að mati lögreglu er þessi frásögn hans talin í samræmi við frásögn brotaþola í Barnahúsi.

Jafnframt játaði maðurinn í seinni skýrslutöku að hafa brotið áður gegn stúlkunni. 

Þegar stúlkan hafi verið sofandi í hvíldarherbergi leikskólans hafi hann dregið niður um hana buxurnar og „sett getnaðarlim sinn á milli læra hennar og viðhaft samfarahreyfingar“.

Styttist í dóm

Líkt og áður segir hefur maðurinn verið ákærður fyrir þessi meintu brot. Hann er ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot, en hann er sagður hafa haft önnur kynferðismök en samræði við stúlku.

Þinghöld í málinu eru hafin, en þau eru háð fyrir luktum dyrum.

Búast má við því að dómur gangi í málinu á næstu vikum.

Þess má geta að foreldrar þrettán barna á leikskólanum kærðu meint brot starfsmannsins, rannsókn var hætt hjá tíu þeirra og þrjú send til héraðssaksóknara. Aðeins var ákært í einu máli.

Foreldrar eins barns hafa kært niðurstöðu lögreglu um að loka málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×