Handbolti

Danir í sjokki eftir fyrsta tapið á heima­velli í tólf ár

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mathias Gidsel var mjög vonsvikinn.
Mathias Gidsel var mjög vonsvikinn. Sina Schuldt/picture alliance via Getty Images

Handboltalandslið Danmerkur tapaði á heimavelli í gærkvöldi, í fyrsta sinn í tólf ár. Sigurstranglegasta lið mótsins kom sér þar í mikil vandræði og sjálfir skilja Danirnir ekkert í þessu.

„Þetta var gjörólíkt okkur. Við gerðum fullt af mistökum og við vorum kærulausir með boltann, sendingarnar sem við sendum þegar við vorum undir pressu voru skelfilegar“ sagði landsliðsþjálfarinn Nikolaj Jakobsen eftir 29-31 tapið gegn Portúgal í gær.

Stjörnuleikmaður liðsins, hornamaðurinn Mathias Gidsel, tók undir með þjálfaranum.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Við getum ekki sætt okkur við þetta. Það er eitt að tapa en að tapa svona er sérstaklega sárt.“

Danmörk er núna í þeirri stöðu að þurfa að vinna alla fjóra leikina í milliriðlinum, gegn Frakklandi, Spáni, Þýskalandi og Noregi, til að tryggja sig áfram í undanúrslit.

„Við erum búnir að setja hámarkspressu á okkur sjálfa og vitum hvað við þurfum að gera í næstu leikjum. Nú þurfum við bara að sjá til hvort það takist“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Danir hafa fagnað ótrúlegri velgengni á undanförnum árum í handboltanum en Evrópugullið hefur runnið þeim margsinnis úr greipum. Danmörk er fjórfaldur ríkjandi heimsmeistari og Ólympíumeistari 2016 og 2024, en biðin eftir EM-gulli hefur staðið síðan árið 2012. Silfur- og bronsverðlaun urðu niðurstaðan á síðustu tveimur Evrópumótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×