Handbolti

Austur­ríkis­menn hjálpuðu Al­freð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Verkefnið varð aðeins auðveldara fyrir Alfreð Gíslason og lærisveina hans í þýska landsliðinu en þeir þurfa samt að fá eitthvað út úr leiknum á móti Spáni á eftir.
Verkefnið varð aðeins auðveldara fyrir Alfreð Gíslason og lærisveina hans í þýska landsliðinu en þeir þurfa samt að fá eitthvað út úr leiknum á móti Spáni á eftir. Getty/Sina Schuldt

Austurríkismenn unnu eins marka sigur á Serbíu á EM í handbolta í kvöld en þetta voru góð úrslit fyrir Alfreð Gíslason og lærisveina hans í þýska landsliðinu sem spila upp á líf eða dauða við Spánverja seinna í kvöld.

Austurríki vann leikinn 26-25 eftir að hafa verið einu marki undir í hálfleik, 12-13.

Sigur Austurríkismanna þýðir að Þjóðverjum nægir jafntefli á móti Spáni í kvöld til að tryggja sæti í milliriðlinum.

Hefðu Serbar unnið leikinn þá hefðu Þjóðverjar þurft að vinna með meiri en þremur mörkum.

Austurríkismenn gátu haldið von sinni um sæti í milliriðli á lífi með fjögurra marka sigri því þá hefði liðið endað efst vegna innbyrðis stöðu ef Þýskaland, Serbía og Austurríki enduðu öll með tvö stig.

Austurríkismenn voru með þriggja marka forskot á lokakaflanum en misstu muninn niður í blálokin.

Serbar verða nú að vonast til þess að Spánverjar vinni Þjóðverja en þá kæmust Serbarnir áfram í milliriðil á innbyrðis úrslitum milli þeirra, Þýskalands og Austurríkis sem öll enduðu þá með tvö stig.

Tékkar unnu 38-29 sigur á Úkraínu í C-riðlinum en þar eru Frakkar og Norðmenn öruggir áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×