Handbolti

Eiga vart orð yfir mögnuðum árangri Fær­eyja: „Al­gjör­lega ein­stakt“

Aron Guðmundsson skrifar
Leikmenn færeyska landsliðsins fagna með sínu fólki í Osló í kvöld eftir sigurinn á Svartfellingum. Engu líkara er en að öll færeyska þjóðin sé mætt til Noregs miðað við stemninguna þar.
Leikmenn færeyska landsliðsins fagna með sínu fólki í Osló í kvöld eftir sigurinn á Svartfellingum. Engu líkara er en að öll færeyska þjóðin sé mætt til Noregs miðað við stemninguna þar. Vísir/EPA

Orð á borð við „töfrandi“ og „einstakt“ eru mikið notuð núna í tengslum við sögulegan sigur færeyska karlalandsliðsins í handbolta á EM í kvöld.  

Færeyjar unnu sinn fyrsta sigur á stórmóti í handbolta í kvöld þegar að liðið valtaði yfir Svartfjallaland í D-riðli EM. Lokatölur 24-37 og von Færeyja um sæti í milliriðlum lifir.

Sigurinn er sá fyrsti í stórmótasögu Færeyja og jafnframt eru Færeyjar nú fámennasta þjóðin til þess að vinna leik á stórmóti í handbolta. Íbúafjöldinn í Færeyjum er í kringum 56 þúsund manns en fyrir sigur kvöldsins voru það Grænlendingar sem áttu metið, landslið Grænlands í handbolta vann leik á HM 2021 en þá var íbúafjöldi landsins um 57 þúsund manns.

„Þetta verður ekki betra en akkúrat svona,“ sagði Óli Mittún, lykilleikmaður færeyska landsliðsins í viðtali hjá Viaplay eftir sigurinn sögulega í dag en sérfræðingar streymisveitunnar áttu vart orð yfir árangri þessarar fámennu þjóðar.

„Það er engu líkara en að öll færeyska þjóðin sé hér í Noregi,“ sagði Daniel Höglund, sérfræðingur Viaplay og kollegi hans Kristian Kjelling, fyrrverandi landsliðsmaður Noregs, tók í svipaðan streng.

„Þetta er töfrum líkast,“ sagði hann og höfðu viðstaddir aldrei upplifað annað eins.

„Þetta er algjörlega einstakt,“ sagði Ole Erevik, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Norðmanna og sérfræðingur Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×