Innlent

Mál látins manns komið til ákærusviðs

Árni Sæberg skrifar
Mynd frá slökkvistörfum við Hjarðarhaga í maí í fyrra.
Mynd frá slökkvistörfum við Hjarðarhaga í maí í fyrra. Vísir/Anton

Rannsókn lögreglu á brunanum á Hjarðarhaga í maí í fyrra er lokið. Niðurstaðan er að kveikt hafi verið í og málið er komið til ákærusviðs. Tveir létust í brunanum og sá sem grunaður er í málinu var annar þeirra. Því er ljóst að enginn verður ákærður fyrir íkveikjuna.

Þetta segir Eiríkur Valberg, fulltrúi í rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. 

Eldurinn kviknaði á ellefta tímanum þann 22. maí síðastliðinn. Þrír voru fluttir á sjúkrahús og tveir létust af sárum sínum, Bandaríkjamaður og Tékki. Þriðji maðurinn, Ungverjinn Sári Morg Gergö, sagði skömmu eftir brunann að hann grunaði Bandaríkjamanninn um að hafa kveikt í íbúð þeirra þriggja.

Að sögn Eiríks var niðurstaða rannsóknarinnar sú að kveikt hefði verið í íbúðinni og að sá grunaði sé látinn. Hann vill þó ekkert gefa upp um hvor hinna látnu er grunaður um verknaðinn. Málið hafi verið sent ákærusviði þrátt fyrir að hinn grunaði sé látinn en það sé vegna hefðbundins verklags. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur þegar gefið út að hinir látnu verði ekki nafngreindir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×