Sport

NFL-meistararnir úr leik í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jauan Jennings og Upton Stout, leikmenn San Francisco 49ers, fagna sigrinum á Philadelphia Eagles í nótt.
Jauan Jennings og Upton Stout, leikmenn San Francisco 49ers, fagna sigrinum á Philadelphia Eagles í nótt. Getty/Elsa

San Francisco 49ers kom tvisvar til baka í síðasta leikhlutanum og sló út ríkjandi meistara Philadelphia þegar spennandi úrslitakeppni NFL hélt áfram í nótt.

Eagles voru í þriðja sætinu í Þjóðadeildinni (NFC) og höfðu því heimavallarrétt á „Wildcard Weekend“ en féllu úr leik í fyrstu umferð þegar liðið í sjötta sæti, 49ers, kom á óvart með 23-19 sigri.

49ers sýndi mikinn styrk með því að klára leikinn eftir að lykilmaður liðsins, innherjinn George Kittle, sleit líklega hásin í fyrri hálfleiknum.

Liðið í sjötta sætinu í Ameríkudeildinni (AFC) vann einnig á útivelli þegar Buffalo Bills tryggði sér 27-24 sigur á Jacksonville, með endurkomu undir lok leiksins.

Þetta hélt lífi í vonum Josh Allen um að komast í sinn fyrsta Super Bowl-leik, en verðmætasti leikmaður NFL-deildarinnar kom Bills aftur yfir með því að skora snertimark sjálfur þegar ein mínúta og fjórar sekúndur voru eftir af leiknum.

New England Patriots vann síðan Los Angeles Chargers 16-3 og vann þar með sinn fyrsta sigur í úrslitakeppni síðan liðið vann sinn sjötta Super Bowl-titil árið 2019.

Áður höfðu lið Los Angeles Rams og Chicago Bears komist áfram á laugardaginn. Lokaleikur helgarinnar er síðan í kvöld þegar Pittsburgh Steelers mætir Houston Texans.

Það er ekki hægt að segja annað en að það hafi verið æsispennandi byrjun á úrslitakeppni þessa tímabils, en í fyrstu fjórum leikjunum var sigur-snertimark skorað á síðustu þremur mínútunum – og stigamunurinn var aldrei meiri en fjögur stig.

Í leikjunum urðu einnig tólf skipti á forystunni í síðasta leikhluta – sem er met fyrir eina úrslitakeppni – og enn eru sjö leikir eftir fram að sextugasta Super Bowl-leiknum þann 8. febrúar næstkomandi.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×