Innlent

Út­koman mikill skellur eftir að vonar­neisti kviknaði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Foreldrarnir fá að vita á morgun hvort héraðssaksóknari ætli að gera aðra atlögu að gæsluvarðhaldi fyrir Landsrétti.
Foreldrarnir fá að vita á morgun hvort héraðssaksóknari ætli að gera aðra atlögu að gæsluvarðhaldi fyrir Landsrétti. Vísir/Vilhelm

Foreldrar tíu ára drengs í Hafnarfirði urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar héraðsdómur hafnaði kröfu héraðssaksóknara um gæsluvarðhald yfir karlmanni sem hefur verið ákærður fyrir að brjóta kynferðislega á drengnum. Þau upplifa sig í fangelsi á heimili sínu meðan maðurinn gangi laus. Þá telja þau minni hans afar valkvætt varðandi hvað gerðist örlagaríka nótt í september. Heimsókn til vændiskonu sé í fersku minni en innbrot á heimili þeirra með öllu gleymt.

Það fylgir því sérstök tilfinning að setjast niður með ráðalausu fólki í sorg. Fólki sem upplifði von í nokkrar klukkustundir á föstudaginn þegar fréttist að héraðssaksóknari hefði ákveðið í snatri að gefa út ákæru á hendur karlmanni á fimmtugsaldri sem þau eru sannfærð um að hafi brotið á syni þeirra. Grunur þeirra er studdur frásögn sonar þeirra, þeirra eigin samskiptum við manninn um nóttina og nú síðast DNA-sýni sem fannst innan á buxnastreng drengsins og öðrum stöðum.

Maðurinn sætti gæsluvarðhaldi í þrjá daga í september en hefur síðan gengið laus. Á sama tíma hefur fjölskylda drengsins varla þorað út úr húsi og hegðun drengsins, sem áður var með eindæmum sjálfstæður og treysti fólki, er gjörbreytt. Hann er hræddur og á afar erfitt með að vera einn.

Foreldrar drengsins biðla til héraðssaksóknara að leita með gæsluvarðhaldskröfu sína fyrir Landsrétt. Raunar lifa þau í þeirri von því á meðan sé það fjölskyldan sem sé í fangelsi. Þrátt fyrir að hafa eflt öryggiskerfi séu þau á nálum hvern einasta dag enda gætu þau rekist á hann í hverfisversluninni, sundi eða göngutúr.

Síminn stoppaði ekki

Málið er eitt það umtalaðasta hér á landi á árinu sem er nýlokið. Hjón í Hafnarfirði voru komin upp í og farin að huga að svefninum á laugardagskvöldi um miðjan september þegar sími konunnar byrjaði að hringja. Fyrrverandi vinnufélagi var að reyna að ná sambandi við hana. Vitandi að hann ætti í vandræðum með vín svaraði hún ekki símanum.

„Við vorum að sofna þegar hann byrjar að hringja nokkrum sinnum. Mér fannst það mjög skrýtið og svaraði ekki. Ég vissi að hann ætti sögu varðandi neyslu og að drekka illa. Mig grunaði að eitthvað svoleiðis væri í gangi,“ segir móðirin.

Hjónin eru hugsi yfir siðferðiskennd ákærða sem hafi sést í Bónusverslun í hverfinu og á íþróttaviðburðum barna. Vísir/Vilhelm

Þarna var klukkan upp úr ellefu. Fimm tímum síðar vakna þau við fleiri símhringingar. Faðirinn hvatti konuna sína til að svara. Manninum hlyti að líða illa. Hún sagðist ekki vera í stuði til að sinna félagsráðgjöf í svefnrofunum.

Hún sendi honum skilaboð og spurði hvað gengi á. Hann svaraði að bragði hvað hún væri að meina? Jú, allar þessar símhringingar. Væri allt í lagi? Já, svaraði hann. En hjá þér?

Við þetta setti móðirin símann á flugstillingu og hallaði höfði. Þau sváfu í klukkustund þegar tíu ára sonur þeirra kom inn í svefnherbergi þeirra á neðri hæð hússins og sagði ókunnugan mann hafa verið í herberginu hans. Faðir hans taldi hann vera að dreyma illa eins og gerðist stundum, fór upp og sá að bróðir hans var sofandi í sínu rúmi í sama herbergi.

Sá manninn út um stofugluggann

Á meðan faðirinn gekk um húsið til að leita af sér grun varðandi mannaferðir lýsti sonurinn fyrir móðurinni hvað hefði verið í gangi. Hræðilegum hlutum sem móðirin átti erfitt með að trúa, fyrst um sinn. Skyndilega öskraði sonurinn og sá þá manninn út um stofugluggann. Hann væri að koma aftur.

Reyndist maðurinn þá ætla að gera tilraun til að komast aftur inn í húsið. Móðirin þurfti að hafa sig alla við að halda um hurðarhúninn áður en faðirinn kom og spurði hvern fjandann gengi á. Þá hörfaði maðurinn, hljóp út úr húsinu og niður götuna með föðurinn á eftir sér með lögreglu í símanum.

Tæpir fjórir mánuðir eru liðnir síðan foreldrarnir vöknuðu upp við martröð á heimili sínu í Hafnarfirði.Vísir/Vilhelm

Móðirin hafði séð manninn og fór að gruna hver hefði verið þarna á ferð eftir undarleg símtöl og skilaboð næturinnar. Hún sýndi syni sínum mynd af fyrrverandi samstarfsmanni sínum og það var kristaltært. Þetta var sami maður.

Þetta var aðfaranótt sunnudagsins 14. september. Lögreglu bar að garði og var maðurinn í framhaldinu handtekinn og yfirheyrður eftir hádegið á sunnudeginum. Samkvæmt heimildum fréttastofu bar maðurinn fyrir sig minnisleysi um atburði næturinnar.

Ákæra gefin út með hraði

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lauk rannsókn sinni á málinu á fimmtudag og sendi gögnin til héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um útgáfu ákæru í málinu. Dæmi eru um að slík gögn geti verið á borði héraðssaksóknara vikum eða mánuðum saman áður en kemur að ákæru. Í þetta skiptið voru vinnubrögðin afar hröð.

Innan við sólarhring síðar var búið að gefa út ákæru. Karl Ingi Vilbergsson varahéraðssaksóknari sagði brotin það alvarleg að mikilvægt hefði verið að gefa út ákæru strax. Þá upplýsti hann að krafist yrði gæsluvarðhalds yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna.

Maðurinn kom fyrir dómara við Héraðsdóm Reykjaness í gærkvöldi. Dómarinn féllst ekki á röksemdir saksóknara og hafnaði beiðni um gæsluvarðhald. Maðurinn sætir þó áfram nálgunarbanni gagnvart drengnum.

Vonarneisti kviknaði í skamma stund

Blaðamaður hitti foreldra drengsins á heimili sínu í gær. Það er óhætt að segja að vonbrigðin hafi verið mikil varðandi niðurstöðu föstudagsins.

„Við erum bæði berskjölduð og vanmáttug,“ segir móðirin. Þau hafi oft átt betri daga. Það hafi verið tilfinningaþrunginn dagur að fá að vita að málið væri komið á það stig að ákæra væri gefin út.

„Það var mikill rússíbani að frétta að hann hefði verið færður fyrir dóm og loksins óskað eftir gæsluvarðhaldi. Að sama skapi var mjög mikill skellur að það hafi ekki verið samþykkt,“ segir faðirinn.

Vonarneisti hefði kviknað og sú tilfinning að eðlilegt líf væri í augsýn færi maðurinn í gæsluvarðhald. Þau gætu andað léttar.

„Síðan hann var látinn laus miðvikudaginn 17. september höfum við verið á nálum.“

Býr í næsta nágrenni

Þau útskýra að maðurinn búi með fjölskyldu sinni í um tíu mínútna göngufjarlægð frá heimili þeirra. Þau trúi almennt á hið góða í fólki og haft þær væntingar um að hann myndi virða friðhelgi þeirra, halda sig fjarri bæjarfélaginu og væri búinn að átta sig á mistökum sínum, axla ábyrgð.

„Nú fáum við þær upplýsingar að hann sé hérna í Bónus í Hafnarfirði, þar sem við erum reglulega, og sæki íþróttaviðburði barna,“ segir faðirinn. Hann er sannfærður um að maðurinn sé að ljúga til að komast hjá því að axla ábyrgð í málinu. Jafnvel þótt maðurinn tryði innst inni á sakleysi sitt þá sé hann sakaður um þetta.

„Ef ég væri þessi maður þá væri ég ekki arkandi úti í búð eða þar sem ég gæti hitt brotaþola eða fjölskyldu hans, jafnvel þótt ég teldi mig saklausan. Ég myndi skammast mín niður í tær,“ segir faðirinn. Hann á erfitt með að ná utan um það að hinn grunaði leyfi sér að hegða sér sem frjáls maður.

Þrátt fyrir fimmtíu metra nálgunarbann þá sé ekkert sem komi í veg fyrir að maðurinn mæti í sund og hitti fyrir son þeirra, jafnvel í skólasundi. Það sé ekki hægt að setja þá ábyrgð á tíu ára dreng að hringja á lögregluna ef hann sjái manninn á förnum vegi.

Sleppt þótt síminn væri ófundinn

Faðirinn bendir á anga af rannsókn lögreglu sem hann skilur ekki, þann að sími mannsins hafi ekki fundist umrædda nótt. Ákærði hafi tjáð lögreglu í fyrstu skýrslutöku að hann hafi tínt símanum sínum og viti ekkert hvar hann sé.

„Þegar hann er spurður hvort þeir fái leyfi hans til að skoða símann ef hann finnist þá tekur hann fram að hann sé búinn að eyða fullt af drasli úr símanum sem gerðist um kvöldið,“ segir faðirinn.

Foreldrarnir eru þakklát fyrir að eiga hvort annað að. Þegar þyrmir yfir þau getur annað farið afsíðis og grátið á meðan hitt sinnir barninu.Vísir/Vilhelm

Þannig muni ákærði ýmsa hluti umrætt kvöld, en ekki neitt af því sem gerðist á heimilinu. Föðurnum finnst minni hans ansi valkvætt og með ólíkindum að manninum hafi verið sleppt eftir þriggja daga gæsluvarðhald án þess að jafnmikilvægt sönnunargagn og sími hans hafi verið fundinn.

„Mér finnst það svo augljós ósannindi að hann hafi týnt símanum,“ segir faðirinn.

Á þessum tíma hafi DNA-gögn úr fötum sonarins ekki verið fundin og síminn því enn mikilvægara sönnunargagn. Faðirinn veltir þeirri spurningu yfir til löglærðra hvort þessi vinnubrögð lögreglu teljist eðlileg. Hvort þarna hefðu ekki verið nægir rannsóknarhagsmunir undir til að lengja í gæsluvarðhaldi.

Hvað gerist þegar hann dettur næst í það?

Faðirinn staldrar líka við almannahagsmuni, að maðurinn geti verið hættulegur samfélaginu. Hann minnir á að maðurinn hafi ekki aðeins brotið sér einu sinni inn á heimilið heldur reynt að þvinga sér þangað aftur inn.

„Hann kemur aftur í einhverjum tilgangi. Afmá ummerki? Ná í sönnunargögn? Þagga niður í einhverjum? Við sitjum eftir með þetta. Hann kemur ekki einu sinni heldur aftur. Hvernig er hægt að rökstyðja það að þessi maður eigi ekki að sitja inni? Þessi maður átti ekkert erindi hérna!“

Faðirinn hefur sjálfur aldrei hitt manninn og móðirin telur mögulegt að sonurinn hafi einu sinni rekist á hann á 17. júní skemmtun. Meiri eru tengslin ekki og símhringingarnar umrædda nótt voru algjörlega upp úr þurru.

„Ég er fyrrum samstarfskona hans en það hljóta að vera fullt af manneskjum í hans lífi sem hann hefur tengingu við. Hann gæti farið hvert sem er inn,“ segir móðirin.

„Hann hringir í konuna mína um nótt og kemur hingað. Hann er ekki að ramba bara eitthvert. Hann ákveður að koma hingað og svo ákveður að koma aftur,“ segir faðirinn.

Þau staldra við þær skýringar að maðurinn hafi verið undir áhrifum. Sömuleiðis vangaveltur fólks um að viðkomandi geri ekki svona aftur.

„Eigum við að trúa því að næst þegar hann dettur í það að hann geri ekkert? Er fjarstæðukennt að halda að hann geri þetta aftur? Nei, mér finnst það ekki,“ segir faðirinn.

„Hefði ég hitt hann daginn á undan og metið hvort hann kæmi óboðinn og nauðgaði barninu mínu þá hefði ég ekki metið það líklegt. Það voru engar vísbendingar um að þetta væri í aðsigi. Við vitum ekkert hverju þessi maður getur tekið upp á, gagnvart okkur eða öðrum.“

Það sé ekki eins og slys eða náttúruhamfarir hafi óvænt átt sér stað.

„Þetta er verknaður manneskju sem getur verið fullkomlega fær að gera slíkt aftur. Þetta er ekki eitthvað sem gerðist heldur eitthvað sem einhver gerði.“

Skiptast á að sofa hjá sonunum

Fjölskyldan hefur í óttanum og kvíðanum eflt öryggisvarnir á heimilinu til muna með öryggiskerfi, rafmagnslás og myndavélakerfi.

„Ég er samt skelfingu lostin. Í hvert skipti sem ég fer að sofa á kvöldin er ég í hástreitu fram eftir kvöldi. Við skiptumst á að sofa hjá börnunum okkar. Á meðan ég veit að hann er á vappi þá er ég ekki örugg,“ segir móðirin.

Amma drengsins hafi ætlað með bræðurna á þrettándagleði í Hafnarfirði en móðirin ákveðið að fara líka.

„Ég fór til að tryggja öryggi barnsins og passa upp á að ef hann væri þarna myndi hann virða nálgunarbannið. Ég stóð þarna eins og hermaður í stríði á flugeldasýningunni tilbúin að grípa inn í ef eitthvað kæmi upp á.“

Foreldrarnir segja skrýtið að fylgjast með öðru fólki sæta gæsluvarðhaldi á grunni almannahagsmuna á meðan ekki þyki tilefni til þess í þeirra máli.Vísir/Vilhelm

Þau hafi ekki farið í árlega ferð í jólaþorpið í Hafnarfirði af ótta við að rekast á manninn. Hann virðist ekki hafa siðferðiskennd miðað við þann skort á virðingu og iðrun sem hann hafi sýnt.

„Maður sem lætur svona, hegðar sér svona, er alveg eins líklegur til að koma hingað aftur. Næsta fyllerí, búinn að fá sér í nös og líður ógurlega illa yfir eigin aðstæðum. Ég vil ekki að börnin og við þurfum að lifa við þetta óöryggi.“

Mikil breyting á syninum

Það er óhætt að segja að atburðirnir um miðjan september hafi haft afleiðingar til hins verra fyrir son þeirra. Hann fór lengi vel ekki í skólann og á mjög erfitt með að vera einn. Þau merkja pínulítil hænuframfaraskref undanfarnar vikur.

„Hann þorir að fara einn út með hundinn, svona tíu metra frá húsinu,“ segir faðirinn. Hann sé nú með skertan skóladag, stuðningsfulltrúi fylgi honum í þá tíma sem hann mæti í. Hann treysti sér ekki til að fara einn í skólann.

„Hann vill ekki labba í myrkri sem er mjög erfitt á Íslandi yfir vetrartímann. Hann sefur mjög illa einn og við sofum að mestu hjá honum. Það eru örfáir dagar sem við prófuðum það en við búum bara við mjög mikinn ótta,“ segir móðirin. Svefnfyrirkomulagið sé ekki eingöngu að beiðni sonarins heldur veiti það foreldrunum meira öryggi.

Breytingin er mikil á tíu ára dreng sem elskar frelsið sem fylgir því almennt að búa í íslensku samfélagi.

„Þetta er barn sem týndist þriggja ára þegar hann fór einn út í búð. Hann var mjög óhræddur við að gera alls konar hluti og mjög sjálfstæður. Það var svo fallegt hvernig hann treysti fólki og umhverfinu sínu. Hann er einstaklega falleg sál,“ segja foreldrarnir.

Veit ekki að maðurinn gengur laus

Sonurinn sé mest megnis heima núna og horfi á sjónvarpið. Góðir vinir komi þó reglulega í heimsókn en hann sjálfur fari voðalega lítið.

„Meðal annars vegna þess að við vitum ekki hvar hann er öruggur. Hann fór einu sinni með vinum sínum niður í Fjörð og við vorum á nálum á meðan. Þetta er ótrúlega flókið,“ segja þau.

Sonurinn viti ekki að ákærði gangi laus.

„Hann fylgist ekki með fréttum og veit ekki að maðurinn gengur laus. Hann heldur að hann sé enn þá í fangelsi. Við erum ekki að veita honum þær upplýsingar, hann hefur ekki spurt. Það gerir þetta sérstaklega óþægilegt ef við skyldum rekast á hann,“ segja foreldrarnir.

Ástæðan fyrir hvítu lyginni er einföld.

„Við viljum gefa honum það að lifa í þeirri trú að maðurinn gangi ekki laus.“

Hafa enga leið nema að tjá sig

Móðirin segir þau tjá sig um ótta sinn núna vegna þess að þau beri væntingar til þess að héraðssaksóknari kæri niðurstöðu héraðsdóms um höfnun á gæsluvarðhaldi. Vonin lifi enn um varðhald svo þau geti dregið andann.

Karl Ingi Vilbergsson varahéraðssaksóknari sagði á föstudagskvöld að embættið myndi leggjast yfir málið og nýta þriggja daga kærufrest. Ómögulegt væri að segja hver niðurstaðan yrði.

„Við höfum enga aðra leið. Við erum ekkert spurð, höfum ekki aðgengi að dómsal. Þetta er barnið okkar og snýst um öryggi okkar. Við verðum að varpa ljósi á hvað það þýðir fyrir okkur að hann gangi laus,“ segja foreldrarnir.

Þau staldra líka við framburð mannsins um atburði næturinnar, þar sem fram kom að hann hefði fyrr um kvöldið heimsótt vændiskonu í Reykjavík. Þar hafi hann getið til um getuleysi og sagt það til marks um að hann gæti ekki hafa brotið á drengnum um nóttina.

„Hann man eftir því að hafa farið til vændiskonu, greitt fyrir leigubíl með símanum og aftur til baka. En svo allt í einu er algjört minnisleysi varðandi það sem gerðist í kjölfarið,“ segir faðirinn.

Hann minnir á að ákærði sé löglærður.

„Hann er örugglega að nota öll trixin í bókinni til að komast hjá því að axla ábyrgð á því sem gerðist. Það finnst mér næstum því verra en glæpurinn, í alvöru. Að axla ekki neina ábyrgð.“

Finna til með fjölskyldu ákærða

Þrátt fyrir óttann og reiði þá vilja foreldrarnir árétta að þeim þyki mjög vænt um fólk.

„Ég vil að hann fái refsingu og að réttlæti verði náð fyrir barnið okkar. Það þarf hreinlega refsingu til að stoppa manninn í sínu lífi og veita honum viðeigandi aðstoð. Hann neyðist til að þiggja hana. Ég vil að hann fái betrun,“ segir móðirin.

„Þú getur viljað manneskju vel sem hefur gert það versta sem þú getur hugsað þér á sama tíma og þú ert reið, sár og með allar þessar tilfinningar,“ segir móðirin og eiginmaður hennar tekur undir.

„Við erum bæði almennt þeirrar skoðunar að fólk sé gott en gott fólk getur gert hræðilega hluti. Framhaldið verður að vera þannig að maðurinn fái aðstoð og skaðinn sem orðinn er verði lágmarkaður. Lausnin er að hann þiggi aðstoð og axli ábyrgð. Við erum ekki að fara að græða neitt á einhverju hatri og hefndum.“

Þau finni mjög til með fjölskyldu mannsins. Það hafi verið skrýtið að upplifa gleði í slíkum harmleik þegar fréttist að ákæra hefði verið gefin út á hendur manninum. Á sama tíma hafi þau fundið til með manninum.

„Þetta eru tilfinningar sem við upplifum en þetta er allt á hans ábyrgð og honum að kenna að fjölskyldu hans er umturnað,“ segir móðirin. Faðirinn segist hafa óttast um eigin gjörðir ef hann myndi hitta viðkomandi úti á götu. Það sé tilfinning sem hann kunni illa við.

„En það er ekkert sem við getum gert nema tjáð okkur um þetta.“

Hvað svo?

Þau nota tækifærið og nefna að það vanti einhver úrræði fyrir foreldra sem lendi í aðstæðum sem þessum. Þau hafi séð fólk í alls konar aðstæðum fá áfallahjálp undanfarnar vikur og mánuði og það hafið stungið þau.

„Okkur var aldrei boðin áfallahjálp,“ segir móðirin. Fagaðilar á borð við lögreglu, barnavernd, Barnahús, skólann og heilsugæsluna hafi tekið vel á móti þeim og fyrir það séu þau þakklát. En oft hafi þau ekki vitað í hvorn fótinn þau ættu að stíga. Til dæmis þegar þau fóru með son sinn á Neyðarmóttöku kynferðisofbeldis.

„Okkur vantaði bæklinginn „hvað svo?“. Hvernig býrðu barnið undir skoðun? Hvað gerirðu eftir skoðun? Þegar þú ert kominn heim? Hvað er eðlilegt að gera daginn eftir? Maður er heilaskemmdur í svona aðstæðum.“

Þau séu líklega betur stödd en margir enda starfi þau í kerfinu og viti þá allavega hvernig á að hafa samband við rétta aðila. Þá nefna þau líka þakklæti yfir viðbrögðum í samfélaginu.

„Að málið sé litið jafnalvarlegum augum og við upplifum af héraðssaksóknara. Í umræðu í kringum okkur og víðar. Það er gífurlega mikilvægt þegar maður situr uppi með reynslu sem þessa, finnist hún alvarleg, að fá speglun frá kerfinu og samfélaginu,“ segja foreldrarnir og þakka fyrir samkennd og skilning í samfélaginu.

Þau hvetja fólk til að forðast dómhörku í umræðunni og sérstaklega að ekki sé hvatt til ofbeldis.

„Það mun hvorki hjálpa barninu okkar né okkur.“

Hafnar því að vera með barnagirnd

Samkvæmt heimildum fréttastofu ber ákærði sem fyrr segir fyrir sig minnisleysi. Hann hefur verið yfirheyrður í þrígang og fjallaði DV meðal annars um yfirheyrslur yfir honum í gær.

Samkvæmt heimildum Vísis segist maðurinn hafa verið á heljarinnar djammi umrætt kvöld, drukkið mikið áfengi auk þess að hafa notað kókaín. Óljóst myndi hann eftir því að hafa tekið leigubíl til Reykjavíkur til fundar við vændiskonu og svo leigubíl aftur í Hafnarfjörð. 

Hann kannaðist við að hafa verið að leita að húsi móðurinnar. Hann myndi eftir því að hafa verið í einhverju húsi en það væri ekki mögulegt að hann hefði snert barn. Hann væri ekki með barnagirnd, fjögurra barna faðirinn.

DNA á náttbuxum drengsins

Lögregla krafðist þriggja daga gæsluvarðhalds yfir manninum og fékk. Hann var aftur yfirheyrður í gæsluvarðhaldsfangelsinu á Hólmsheiði en sagðist litlu geta bætt við fyrri framburð. Þrátt fyrir minnisleysið taldi hann að hann hefði verið á vettvangi í húsinu í Hafnarfirði umrædda nótt. Hann myndi hins vegar ekkert hvað hefði gerst þar.

Á þessum tímapunkti taldi lögregla ekki skilyrði uppfyllt fyrir frekara gæsluvarðhaldi og hefur hann gengið laus síðan.

Sviðsstjóri ákærusviðs hjá lögreglu sagði málið litið mjög alvarlegum augum. Lögreglan hefði unnið sleitulaust við að afla sönnunargagna. Skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi væru ekki uppfyllt hvorki er varðaði rannsóknarhagsmuni né almannahagsmuni.

Rannsókn hélt áfram og voru öll rúmföt sonarins og fötin sem hann klæddist umrædda nótt tekin til rannsóknar, send til Svíþjóðar og leitað að DNA-sýni mannsins. Mörgum vikum síðar barst niðurstaðan. DNA- mannsins fannst á innanverðum náttbuxum drengsins.

Segist ekki hafa ruglast á drengnum og konunni

Samkvæmt heimildum Vísis voru þessar niðurstöður bornar undir hinn grunaða í yfirheyrslu hjá lögreglu. Hann sagðist enga skýringu geta gefið á þessu. Þá tók framburður hans nokkrum breytingum, nú neitaði hann að hafa farið inn á heimili fjölskyldunnar umrædda nótt og sagðist raunar aðeins hafa komið þangað í starfsmannateiti árið 2022 þegar hann starfaði með móður drengsins.

Ákærði er lögfræðingur á fimmtugsaldri, fjölskyldumaður í Hafnarfirði. Hann mun hafa hafnað þeirri kenningu að hafa umrædda nótt ruglast á móðurinni og barni. Hann myndi aldrei í neinu einasta rétta ráði leggjast með barni.

Þá voru niðurstöður úr blóðsýni vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu hans um nóttina bornar undir hann. Blóðsýnið sýndi 1,0 prómill áfengis og umbrotsefni kókaíns. Ákærði taldi magnið ekki það mikið og ekki geta útskýrt minnisleysi hans um nóttina.

Hinn ákærði gengur því enn þá laus og þarf héraðssaksóknari að kæra höfnun á gæsluvarðhaldskröfunni til Landsréttar í síðasta lagi á morgun mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×