Erlent

„En við þurfum samt Græn­land“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Donald Trump Bandaríkjaforseti var myrkur í máli þegar blaðamaður innti hann eftir því hvaða þýðingu nýafstaðin árás á Venesúela og handtaka á forseta landsins hefði fyrir Grænlendinga. Hann ítrekaði samt mikilvægi þess að Bandaríkin innlimi Grænland.

Donald Trump ræddi við blaðamann The Atlantic um árásina á Venesúela. Bandaríkjaher gerði loftárásir á höfuðborg landsins Karakas og tóku forseta landsins, Nicolás Maduro, fastan ásamt eiginkonu hans. Sá fyrrnefndi dvelur nú í fangelsi í New York-borg.

Forseti sem láti slag standa

Á blaðamannafundi sem Trump hélt síðdegis í gær ásamt utanríkisráðherra sínum, Marco Rubio, varnarmálaráðherra sínum, Pete Hegseth, og æðsta yfirmanni Bandaríkjahers, Dan Caine, var utanríkisráðherrann afdráttarlaus í yfirlýsingum. Sérstaka athygli hafa ummæli hans um framferði Bandaríkjaforseta vakið. Á fundinum gerði Marco Rubio utanríkisráðherra það eiturskýrt að heimurinn þyrfti að átta sig á því að Bandaríkin hefðu nú forseta sem léti slag standa.

„Þegar hann segist ætla að gera eitthvað, þegar hann segist ætla að bregðast við einhverju vandamáli, meinar hann það,“ sagði hann meðal annars og var orðið heitt í hamsi.

Leiðtogar Evrópu hafa skirrst við að fordæma þessar aðgerðir sem í samhengi við ummæli forkólfa bandarísku ríkisstjórnarinnar svipa til beinnar ógnar við fullveldi Grænlands og í leiðinni danska samveldisins.

Hálfkveðnar vísur

Trump fór aðspurður með hálfkveðnar vísur og lét ekki í það skína að hann væri mótfallinn því að beita Grænlendinga valdi.

„Þeir þurfa að skoða það sjálfir. Ég bara veit það ekki,“ sagði hann inntur eftir því hvaða meiningu atburðir liðinna daga hefðu fyrir landsstjórnina í Nuuk.

„Hann var mjög rausnarlegur í minn garð, hann Marco, í gær,“ bætti hann svo við.

„Sko, ég var ekki að vísa til Grænlands á þeim tíma. En við þurfum samt Grænland, ekki spurning. Við þurfum það í þágu varna,“ klykkti hann út með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×