Sport

Anthony Joshua út­skrifaður af spítalanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Joshua missti tvo nána vini sína í bílslysinu en slapp ótrúlega vel sjálfur.
Anthony Joshua missti tvo nána vini sína í bílslysinu en slapp ótrúlega vel sjálfur. EPA/STR

Breski þungavigtarhnefaleikakappinn Anthony Joshua hefur verið útskrifaður af spítala í Nígeríu nokkrum dögum eftir alvarlegt bílslys þar sem tveir nánir vinir hans létust.

Fyrrverandi heimsmeistarinn var talinn fær um að ná sér heima eins og sagði í sameiginlegri yfirlýsingu frá þeim sem koma að málinu í Nígeríu.

Hinn 36 ára gamli hnefaleikakappi var farþegi í Lexus-jeppa sem lenti í árekstri við kyrrstæðan vörubíl á stórum hraðvegi í Ogun-ríki, nálægt Lagos, á mánudag.

Mennirnir tveir sem létust voru nánir vinir og liðsmenn Joshua, Sina Ghami og Latif „Latz“ Ayodele. 

Eftir að hafa yfirgefið spítalann á miðvikudag heimsótti Bretinn útfararstofuna þar sem lík vina hans voru undirbúin fyrir flutning heim en það kom líka fram í umræddri sameiginlegri yfirlýsingu en breska ríkisútvarpið segir frá.

Fyrr um daginn vottaði Eddie Hearn, sem hefur verið umboðsmaður Joshua síðan hann gerðist atvinnumaður eftir að hafa unnið gull á Ólympíuleikunum 2012, nánum vinum og liðsmönnum Joshua virðingu sína.

„Hvílið í friði Latz og Sina,“ skrifaði Hearn á Instagram.

„Orku ykkar og tryggðar, ásamt svo mörgum öðrum frábærum eiginleikum, verður sárt saknað. Biðjum fyrir styrk og leiðsögn fyrir allar fjölskyldur þeirra, vini og auðvitað AJ á þessum mjög erfiðu tímum.“

Ghami var endurhæfingarþjálfari Joshua í fullu starfi og starfaði með honum í meira en tíu ár.

Í samtali við BBC á miðvikudag sagði Oluseyi Babaseyi, talsmaður lögreglunnar í Ogun-ríki, að „rannsóknir séu enn í gangi“ og lýsti ferlinu sem svo að það væri „enn á viðkvæmu stigi“.

Umferðareftirlitsstofnunin (TRACE) í Ogun-ríki, þar sem slysið varð, hefur sagt að frumrannsóknir hafi sýnt að dekk hafi sprungið á bílnum áður en hann lenti á vörubílnum.

Joshua, sem fæddist í Watford og á nígeríska foreldra, var í fríi í Nígeríu eftir sigur sinn á Jake Paul í Miami þann 19. desember.

Fyrr um daginn skrifaði Tony Bellew, fyrrverandi heimsmeistari í léttþungavigt, á X: „Hugur minn og bænir eru hjá fjölskyldum þessara manna. Hörmulegur missir við hræðilegar aðstæður!

„Ég vona að hann [Joshua] geti unnið úr þessu með tímanum því enginn sársauki í lífinu er verri en sorg.“

Tvívegis óumdeildi þungavigtarmeistarinn Oleksandr Usyk og breski fyrrverandi þungavigtarmeistarinn Tyson Fury birtu einnig Instagram-sögur til að votta samúð sína.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×