Neytendur

Strætómiðinn mun kosta 690 krónur eftir ára­mót

Agnar Már Másson skrifar
Strætó hækkar gjaldskrá sína yfirleitt tvisvar á ári.
Strætó hækkar gjaldskrá sína yfirleitt tvisvar á ári. Vísir/Vilhelm

Verð á strætómiða fyrir fullorðna hækkar um tuttugu krónur eftir áramót, eða um þrjú prósent. Byggðasamlagið hækkar að jafnaði gjaldskrá sína tvisvar á ári. Gjaldskrárbreytingar taka gildi 6. janúar 2026.

Strætó greinir frá því í fréttatilkynningu að ný gjaldskrá taki gildi þann 6. janúar næstkomandi samkvæmt ákvörðun stjórnar. Nemur hækkunin þremur prósentum á stökum fargjöldum en 3,6 prósentum á tímabilskortum.

Stakt fargjald fyrir fullorðna fer þannig úr 670 krónum í 690 krónur og 30 daga nemakort og kort fyrir ungmenni og aldraða fer úr 5.600 krónum í 5.800 krónur. Verð á Klapp plastkortum helst óbreytt eða 1.000 krónur.

Ákvörðun um gjaldskrárbreytingu var tekin af stjórn félagsins á fundi þess 10. október síðastliðinn og er í samræmi við gjaldskrárstefnu stjórnar Strætó um að verð hækki í takt við áætlaða hækkun neysluverðsvísitölu.

Strætó endurskoðar gjaldskrá sína tvisvar á ári en stjórn félagsins sleppti því að hækka fargjöld í sumar. Þau voru því síðast hækkuð 8. janúar 2025.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×