Erlent

Frú Macron í klandri eftir ó­smekk­leg um­mæli um femín­ista

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Forsetafrúin Brigitte Macron vissi ekki þegar hún lét ummælin falla að þau myndu nást á myndband.
Forsetafrúin Brigitte Macron vissi ekki þegar hún lét ummælin falla að þau myndu nást á myndband. AP/Ludovic Marin

Franska forsetafrúin Brigitte Macron á mál yfir höfði sér vegna ummæla sem hún lét falla og náðust á upptöku. Ríflega þrjú hundruð konur hafa kært ummælin sem þykja fela í sér kvenfyrirlitningu en þau lét forsetafrúin falla í leikhúsi í höfuðborginni París á dögunum. Orðin lét hún falla baksviðs í samtali við franska leikarann og skemmtikraftinn Ary Abittan en atvikið náðist á upptöku og hefur vakið reiði meðal femínista í Frakklandi.

Abittan, sem hefur verið sakaður um nauðgun, var sjálfur á leið á svið þegar hann átti spjall við forsetafrúna. Guardian greinir frá en í myndbandi af atvikinu má heyra hvar frú Macron kallar femíníska mótmælendur sem mætt höfðu á sýninguna „heimskar tíkur“. Málið rataði í fréttir í síðustu viku en nú hafa 343 konur kært Macron vegna ummælanna.

Macron var stödd á sýningu í Folies Bergère leikhúsinu í París ásamt dóttur sinni og vinum þar síðustu helgi, en kvöldið áður hafði hópur femínískra mótmælenda truflað sýninguna og hrópað „Abittan, nauðgari!“ Þá mun Macron hafa spurt leikarann hvernig honum liði, hann hafi sagst hræddur og hún sagði mótmælendurna í framhaldinu vera „heimskar tíkur“ og ef þær myndu mæta aftur ætti að „henda þeim út.“

Juliette Chapelle, lögmaður hóps femínista sem standa að málsókninni, sagði í samtali við France Inter radio að þar sem hún sé forsetafrú þá skipti orð hennar máli. Macron hafi til þessa virst umhugað um málstað kvenna, „en í raun og veru má segja að það sé misræmi í því sem hún segir opinberlega og hvað henni finnst í raun og veru,“ líkt og haft er eftir Chapelle.

Í umfjöllun Fance 24 um málið segir að Abittan hafi verið kærður fyrir nauðgun árið 2021, en málið hafi verið látið niður falla 2023 vegna skorts á sönnunargögnum. Í yfirlýsingu frá skrifstofu forsetafrúrinnar segir að hún hafi með orðum sínum verið að reyna að róa taugar leikarans. „Hún er með engu móti að ráðast að nokkrum málstað. Hins vegar samþykkir hún ekki róttækar aðgerðir sem beitt er til að koma í veg fyrir að listamaður stígi á svið, líkt og gert var á laugardagskvöld,“ sagði í yfirlýsingunni, þar sem vísað var til atviksins sem átti sér stað fyrsta laugardaginn í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×