Erlent

Hand­tekinn á Heathrow eftir á­rás með piparúða

Agnar Már Másson skrifar
Af Heathrow-flugvelli.
Af Heathrow-flugvelli. Getty

Einn hefur verið handtekinn grunaður um að ráðast á hóp fólks með piparúða á Heathrow-flugvelli í Lundúnum. Fleiri árásarmanna er enn leitað og mikill fjöldi viðbragðsaðilar er á vettvangi. Hið minnsta fimm voru fluttir á sjúkrahús.

Vopnaðir lögreglumenn handtóku mann í Lundúnum í dag þar sem hann er talinn hafa verið í hópi manna sem úðuðu ertandi efni í fólksfjölda á bílastæði við Heathrow-flugvöll klukkan átta í morgun. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögreglan í Lundúnum gaf út klukkan 10 að íslenskum tíma.

„Fjöldi fólks var úðaður með því sem við teljum vera piparúða,“ segir í yfirlýsingu lögreglu.

Árásin átti sér á bílastæði við flugstöð 3.Getty

Maðurinn sem tekinn var höndum er grunaður um líkamsárás að sögn lögreglu. Leit stendur enn yfir að hinum sem tóku þátt í árásinni, sem átti sér stað í bílastæðahúsi við flugstöð 3 á Heathrow.

Fimm hið minnsta voru fluttir á sjúkrahús en enginn er talinn í lífshættu. Sky News hefur eftir lögreglu að atvikið tengist rifrildum sem hafi farið úr böndunum milli hóps af fólki sem þekktist.

BBC hefur eftir vegfarandanum Tom Bate að hann hafi fundið fyrir sviða í hálsinum á sér.

„Ég var við flugstöð þrjú að bíða eftir fari til að komast að bílastæðaskúrnum ásamt kannski 50 manns þegar ég sá unga svartklædda menn þjóta í gegnum mannfjöldann,“ er haft eftir Bate.

„Um leið og þeir voru farnir fór fólk að hósta, og svo fór ég að hósta. Ég fann fyrir sviða aftarlega í hálsinum á mér,“ bætir hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×